Erfitt gæti reynst að fá upplýsingar frá Airbnb

Íslendingar eru duglegir að leigja íbúðir sínar í gegnum vefsíðuna …
Íslendingar eru duglegir að leigja íbúðir sínar í gegnum vefsíðuna Airbnb. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Formaður ferðamálaráðs telur að erfitt verði að fá upplýsingar frá Airbnb vegna deilihagkerfisins. Bene­dikt Jóhann­es­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, hefur sagt að íslensk stjórn­völd séu komin í sam­band við hús­næðis­út­leigu­síð­una Air­bnb og von­ast til að hægt verði að gera samn­ing við fyr­ir­tæk­ið og fá upplýsingar um alla sem eru í heimagistingarstarfsemi. 

„Við von­umst til þess að þau geti séð um að inn­heimta fyrir okkur ákveðin gjöld um leið og fólk pant­ar, til dæmis gistin­átta­skatt. Þá myndum við fá upp­lýs­ingar um hverjir það eru sem eru í þess­ari starf­semi. Og skatt­arnir myndu skila sér. Það skiptir mjög miklu máli. Og þá verður sam­keppnin heldur ekki ójöfn,“ sagði Benedikt í samtali við Kjarnann á mánudag.

Eftir því sem Unnur Valborg Hilmarsdóttir, formaður ferðamálaráðs,  best veit er Airbnb mjög tregt við að láta frá sér slíkar upplýsingar upplýsingar.

„Hinsvegar er hægt að fá upplýsingar úr kerfi sem kallað er AirB&D en það eru upplýsingar sem Airbnb lætur af hendi þannig að mögulega verður hægt að nálgast einhverjar upplýsingar þar. En það er einn af göllunum og eitt af því sem hefur verið verið gagnrýnt Airbnb  að það er erfitt að fá svona heildarupplýsingar úr því kerfi,“ sagði Unnur í þættinum Magasíninu á K100 síðdegis í gær.

Mikilvægt að jafna samkeppnisstöðu 

Ferðamálaráði ber að skila tillögum fyrir ágústlok að aðgerðum til að bregðast við áskorunum sem ætla má að raski samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu um þessar mundir. Eitt af þeim verkefnum sem ferðamálaráði var falið var að koma með tillögur um hvernig megi ná utan um óeðlilegt samkeppnisforskot í deilihagkerfinu.

Unnur telur að erfitt verið að fá upplýsingar frá Airbnb.
Unnur telur að erfitt verið að fá upplýsingar frá Airbnb. mbl.is

„Þetta er frekar flókið mál og þetta er eitthvað sem ráðið er að hefjast handa við að vinna. Þetta er tiltölulega nýtt fyrirbæri og ekki mörg ár síðan að fólk fór að deila eignum sínum með þessum hætti sem við erum farin að gera í dag og það er alls ekkert einfalt að ná utan um þetta. En það er mikilvægt að við gerum það til að jafna þessa samkeppnisstöðu þeirra sem eru með rekstur og þeirra aðila sem vilja leigja út einhverja nokkra daga á ári.“

Unnur segir jafnframt mikilvægt að hafa í huga að deilihagkerfið er ekki eingöngu Airbnb. Það er fleira sem kemur til.

„Þrátt fyrir  að Airbnb  verði með einhverjum hætti brotið á bak þá er deilihagkerfið sem slíkt komið til að vera og við þurfum alltaf að finna leiðir til að ná utanum það, hvort sem það er í tengslum við gistingu eða leigubíla líkt og við komum líklega til með að þurfa að glíma við á næstu misserum og er að gerast erlendis. Við þurfum að finna einhverjar leiðir til þess að ná utan um deilihagkerfið almennt.“

Hækkunin bitnar á þeim sem eru fjær 

Á síðasta ári var lögum breytt og fólki gert kleift að leigja eignir sínar út í 90 daga án þess að fara í gegnum strangt ferli, eins og að fá vottorð heilbrigðisyfirvalda um að eignin uppfylli fyrirfram ákveðnar kröfur. Sú breyting tekur gildi frá og með mánaðamótum.

„Frá og með 1. júlí má eiginlega segja að þetta einfalda ferli verði fyrir alvöru komið í gagnið. Þá bind ég miklar vonir við það að við förum að sjá hækkaðar tölur yfir skráðar Airbnb gistingu og þá gefst kannski frekar lag að ná betur um þetta.“

OECD hefur sett fram þær tillögur að virðisaukaskattur verði hækkaður, í takt við þær hugmyndir sem nú liggja á borðinu um að hækka ferðaþjónustuna úr neðra þrepi virðisauka í það hærra. Unnur segir að ferðmálaráð hafi á sínum tíma skilað umsögn til ráðherra varðandi þetta mál. Hún telur breytingar muni koma niður á samkeppnishæfni greinarinnar.

„Við tökum undir þær ábendingar og það er nokkuð líka sem ferðaþjónustuaðilar úti á landi eru þegar farnir að finna fyrir í tengslum við styrkingu krónunnar, að þessi fyrirhugaða hækkun muni hafa mest áhrif á þeim svæðum sem fjærst eru höfuðborgarsvæðinu. Það erum við að sjá í raun núna.“

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtalið við Unni í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK