Alexandra Sif Nikulásdóttir er tekjuhæsti Snappari landsins samkvæmt tekjublaði DV sem kom út í morgun. Þetta er í fyrsta skiptið sem sérstakur flokkur er undir Snappara í tekjublaðinu en þeir nota samfélagsmiðilinn Snapchat til þess að sýna frá lífi sínu.
Alexandra Sif er fjarþjálfari hjá fyrirtækinu FitSuccess, og er jafnframt förðunarfræðingur, bloggari og fitness keppandi. Hún var með 631.433 krónur á tekjur í mánuði í fyrra. Í öðru sæti er skemmtikrafturinn Hjálmar Örn Jóhannsson en hann var með 605.196 krónur á mánuði.
Eva Laufey Hermannsdóttir sem hefur m.a. verið með þætti um eldamennsku á Stöð 2, gefið út uppskriftarbækur og heldur út vinsælu bloggi er í þriðja sæti með 602.182 krónur á mánuði.
Í fjórða sæti má finna Brynju Dan Gunnarsdóttur markaðsstjóra skófyrirtækisins S4S en hún var með 598.778 krónur í tekjur á mánuði í fyrra.
Aðrir þekktir á lista DV er bloggarinn og fyrrverandi blaðamaðurinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir með 355.751 krónur á mánuði og þá var Sólmundur Hólm Sólmundarson, skemmtikraftur og útvarpsmaður með 284.028 krónur á mánuði í fyrra. Þá var Manúela Ósk Harðardóttir, nemi og framkvæmdastjóri keppninnar Miss Universe með 219.618 krónur á mánuði.