Meðallaun 200 efstu í flokki forstjóra á síðasta ári voru tæplega 2,8 milljónir króna á mánuði. Þar af voru 20 konur og voru meðallaun þeirra tæplega 3,1 milljón á mánuði.
Tvö hundruð efstu forstjórar landsins hækkuðu í launum um 8% á meðan launavísitalan hækkaði um rúmlega 11%. Tvö ár í röð hafa 200 efstu forstjórarnir hækkað í launum að jafnaði um 8% á ári.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Frjálsri verslun sem gaf út sitt árlega Tekjublað í dag.
Af fimm flokkum þar sem blaðið skoðar sérstaklega meðaltekjur 200 efstu í hverjum flokki fyrir sig eru það aðeins sjómenn sem lækka á milli ára; úr 2,3 milljónum króna í 2,0 milljónir króna á mánuði.
Ef hlutfall kynjanna er sérstaklega skoðað kemur í ljós að alls 45 konur eru á meðal 200 efstu í flokki starfsmanna fjármálafyrirtækja, eða 22%, og þá eru 44 konur meðal 200 efstu í flokki næstráðenda, eða 22%.
Í tilkynningunni er bent á að af 40 efstu í flokki lækna eru aðeins 2 konur og jafnframt bent á að hlutfall kvenna á fyrsta ári í læknisfræði er 2/3 á móti 1/3 karla.
„Því er öðru vísi farið í flokki hjúkrunarfræðinga – en þar eru 60 í því úrtaki og aðeins 1 karlmaður. Meðaltekjur þessara 60 hjúkrunarfræðinga voru 937 þúsund krónur á mánuði,“ segir í tilkynningunni.
Efstur á lista í Tekjublaðinu í heild er Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja og einn af þremur stærstu eigendum fyrirtækisins, en hann var með 26 milljónir á mánuði. Í öðru sæti er Valur Ragnarsson, forstjóri Medis, með 24,5 milljónir á mánuði og þá er Ársæll Hafsteinsson, lögmaður og framkvæmdastjóri LBI, með 23,1 milljón á mánuði.
Efsta konan á blaði er Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, með 5,5 milljónir króna á mánuði. Þá er Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, stjórnarmaður Virðingar, í öðru sæti með 4,7 milljónir á mánuði en Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er í þriðja sæti með 4,6 milljónir á mánuði.
Alls eru birtar launatekjur 3.725 einstaklinga í Tekjublaði Frjálsrar verslunar að þessu sinni og sem fyrr koma fjármagnstekjur ekki við sögu.