Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, og Haraldur Johannessen, ritstjóri og framkvæmdastjóri Morgunblaðsins, skipa tvö efstu sæti listans yfir tekjuhæstu fjölmiðlamenn landsins í fyrra.
Davíð var með 3,9 milljónir króna í tekjur á mánuði í fyrra en Haraldur var með 2,6 milljónir króna. Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi DV, skipar þriðja sæti listans með 2,4 milljónir á mánuði.
Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri 365, var með 1,5 milljónir á mánuði og Ómar R. Valdimarsson, lögfræðingur sem var fréttamaður Bloomberg í fyrra, var með 1,4 milljónir króna á mánuði í tekjur árið 2016.
Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV, var með 1,4 milljónir króna og Logi Bergmann Eiðsson, fréttamaður 365 miðla, var með 1,4 milljónir á mánuði.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, var með 443 þúsund á mánuði og Edda Sif Pálsdóttir, dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, var með 528 þúsund krónur. Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, var með 542 þúsund krónur en Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, var með 560 þúsund krónur á mánuði.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, var með 562 þúsund krónur í tekjur á mánuði og Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri Vikunnar, var með 564 þúsund krónur í tekjur á mánuði árið 2016.
Í tekjublaði Frjálsrar verslunar er tekið fram að um útsvarsskyldar tekjur á árinu 2016 sé að ræða og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Jafnframt hafa margir tekið út séreignarsparnað en hann telst með í útsvarsskyldum tekjum, segir í blaðinu.