Airbnb hefur innheimt 30 milljarða

Í svari Airbnb segir að fyrirtækið fagni öllum tækifærum til …
Í svari Airbnb segir að fyrirtækið fagni öllum tækifærum til þess að vinna með borgum að skýrum reglum um heimagistingu og að hjálpa gestgjöfum og gestum að greiða gjöld og skatta. AFP

Airbnb hefur innheimt meira en 300 milljónir Bandaríkjadala eða því sem nemur 30,7 milljörðum íslenskra króna í skatta og gjöld fyrir yfirvöld í 310 umdæmum þar sem starfsemi fyrirtækisins fer fram.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Airbnb við fyrirspurn mbl.is þar sem spurt var út í samstarf fyrirtækisins við yfirvöld þegar kemur að innheimtu gjalda og skatta. 

Í viðtali við Kjarnann í síðustu viku sagði Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra að íslensk yfirvöld hafi haft samband við Airbnb um að innheimta fyrir þau ákveðin gjöld um leið og fólk pantar. Í kjölfarið sagði formaður ferðamálaráðs, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, að það gæti reynst erfitt og sagði að eftir því sem hún vissi væri Airbnb mjög tregt við að láta frá sér slíkar upplýsingar. 

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. mbl.is/Rax

Í svari Airbnb segir að fyrirtækið fagni öllum tækifærum til þess að vinna með borgum að skýrum reglum um heimagistingu og að hjálpa gestgjöfum og gestum að greiða gjöld og skatta.

Þá segir jafnframt að Airbnb hafi haft jákvæð áhrif á íslenska hagkerfið „með því að laða ferðamenn frá öllum heimshornum til Íslands og með því að dreifa ávinningnum af ferðamennsku til allra Íslendinga.“ Í svarinu kom þó ekki fram hver staðan væri á samstarfi Airbnb og íslenskra yfirvalda. 

Þá segir jafnframt að Airbnb vilji tryggja það að viðskiptavinir sínir greiði öll gjöld og skatta samkvæmt lögum og „byggja upp opið og gagnsætt samfélag.“

14,5% markaðshlutdeild í Reykjavík

Í síðustu viku birti Kjarninn viðtal við fjármálaráðherra sem sagði að íslensk stjórnvöld væru komin í samband við Airbnb og vonuðust til þess að gera samning við fyrirtækið.

„Við von­umst til þess að þau geti séð um að inn­heimta fyrir okkur ákveðin gjöld um leið og fólk pant­ar, til dæmis gistin­átta­skatt. Þá myndum við fá upp­lýs­ingar um hverjir það eru sem eru í þess­ari starf­semi. Og skatt­arnir myndu skila sér. Það skiptir mjög miklu máli. Og þá verður sam­keppnin heldur ekki ójöfn,“ sagði Benedikt í samtali við Kjarnann. 

Markaðshlutdeild Airbnb hér á landi er mikil miðað við aðrar borgir Evrópu. Samkvæmt rannsókn á starfsemi Airbnb sem kynnt var í maí varð 90% aukn­ing á bók­un­um í gegn­um Airbnb í Reykjavík fyrstu þrjá mánuði árs­ins og sam­kvæmt sömu könn­un eru 5.299 eign­ir í boði á Airbnb í Reykja­vík. 

Þá var markaðshlut­deild Airbnb á síðasta ári í Reykja­vík 14,5% en ferðamenn bókuðu um 416.000 gist­inæt­ur í gegn­um síðuna í borg­inni í fyrra. Hlut­fallið í Reykja­vík var tölu­vert hærra en í öðrum evr­ópsk­um borg­um eins og Amster­dam þar sem hlut­fallið var 11% og 9% í Berlín.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK