Grímsnes- og Grafningshreppur hækkar fasteignagjöld hjá öllum þeim sem sækja um leyfi til heimagistingar í 90 daga, óháð því hvort viðkomandi hyggist leigja eignina sína í nokkra daga eða 90. Oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps segir breytingarnar á lögum um heimagistingu sem tóku gildi um áramótin stangast á við lög um tekjustofna sveitarfélaga.
Samtök um skammtímaleigu á heimilum, SSH, hafa vakið athygli á hækkunum og segir Sölvi Melax, formaður samtakanna, í samtali við mbl.is að með þessu séu sveitarfélagið að slást við ríkið og að sumarbústaðaeigendur lendi í miðjunni.
Sölvi nefnir máli sínu til stuðnings breytingar á álagningarseðli hjá Grímsnes- og Grafningshreppi fyrir síðasta ár þar sem fasteignagjaldsprósentan hafa tæplega fjórfaldast í 90 daga og hækkað gjöldin samtals um 85.077 krónur.
Þegar Sölvi spurðist fyrir hjá hreppnum um þessa hækkun sagði í svari að allir sem sæktu um heimagistingu þar hefðu fengið nýjan álagningarseðil með hærri gjöldum. Þau telji að nýjar breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þar sem segir m.a. að heimagisting í 90 daga á ári teljist ekki fara fram í atvinnuhúsnæði, stangist á við lög frá árinu 1995 um tekjustofna sveitarfélaga og muni halda áfram að hækka fasteignagjöld hjá öllum sem sæki um heimagistingu. Þá kom jafnframt fram í svari hreppsins að verði athugasemdir sendar verði óskað eftir því að farið verði í prófmál við hreppinn.
„Það fer ekki hver sem er í prófmál við sveitarfélag,“ segir Sölvi sem segir þetta viðhorf hreppsins út í hött.
Sölvi segir mikla aukningu í því að landsmenn ákveði að leigja út sumarbústaði sína. „Enda eru það eignir sem eru ekki almennt mikið í notkun og því er þjóðhagslega hagkvæmt að nýta þann húsakost,“ segir Sölvi.
Það er mat Sölva að nýju lögin um heimagistingu séu ekki nægilega vel úthugsuð og með þeim sé verið að herða hlutina of mikið og setja of miklar hömlur.
„Það er búið að flækja þetta of mikið og fólk er hætt að skilja hvað er að gerast,“ segir hann og bendir á að það sjáist helst í hversu fáir eru búnir að sækja um þessi leyfi. Hann segist þó vona að þeim muni eitthvað fjölga nú þegar búið er að breyta lögunum þannig að ekki þarf sérstakt starfsleyfi heilbrigðisnefndar fyrir heimagistingu.
Hann segir að SSH leggi áherslu á að félagsmenn fari að settum reglum og lögum varðandi skatta og gjöld. Hann bendir þó á að þegar að sveitarfélögin fari ekki sjálf eftir þeim og auki gjöld á einstaklinga sé alveg ljóst að fólk muni ekki skrá sig og að tilgangur laganna muni ekki nást.
„Fólk mun hugsa sig tvisvar um ef fasteignagjöldin hækka fjórfalt við það að skrá eign i skammtímaleigu,“ segir Sölvi.
Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes og Grafningshrepps, staðfestir það í samtali við mbl.is að fasteignagjöldin hafi verið hækkuð hjá þeim sem sækja um leyfi til heimagistingar í 90 daga. Segir hann að nýju lögin um heimagistingu stangist á við lög um tekjustofn sveitarfélaga. „Við erum búin að fá úrskurð frá yfirfasteignaskattsnefnd um það. Þetta er ekki flókið.“
Gunnar segir að stjórnvöld þurfi að breyta lögunum ef fasteignagjöldin eigi ekki að hækka þegar að sótt er um leyfi fyrir heimagistingu. „Við getum ekki verið lögbrjótar um álagningu fasteignagjalda,“ segir Gunnar sem er frekar gagnrýninn á nýja frumvarpið um heimagistingu og segir að svo virðist sem stjórnvöld viti ekki alveg hvað þau séu að gera.
Spurður segir Gunnar að í hreppnum séu það aðeins eigendur sumarhúsa sem hafi sótt um leyfi til heimagistingar og bætir við að talsvert sé um að fólk geri það.