Velta laxeldis á Íslandi gæti numið um 1,1 milljarði evra þegar fram í sækir eða tæplega 129 milljörðum króna, samkvæmt í nýrri greiningarskýrslu frá norræna fjárfestingabankanum Beringer Finance þar sem rýnt er í horfur í íslensku laxeldi.
Ef spáin rætist myndi laxeldi leggja til 5% af landsframleiðslu hér á landi. Til samanburðar var hlutdeild sjávarútvegs rúmlega 8% af landsframleiðslu árið 2015. Markaðshlutdeild Íslands í laxeldi á heimsvísu yrði um 5-6%. Eldið gæti mögulega skapað um sex þúsund störf á landsbyggðinni en til samanburðar störfuðu tæplega níu þúsund manns í sjávarútvegi í apríl.
Í fréttaskýringu um þetta efni í ViðskiptaMogganum í dag segir að enn sé þó langt í land. Reiknað er með að uppskeran í ár verði rúmlega tíu þúsund tonn, sem koma frá Arnarlaxi, en miðað við fyrrnefnda spá er reiknað með að íslenskt laxeldi muni framleiða rúmlega 167 þúsund tonn. Gangi spáin eftir myndi Ísland skipa fimmta sætið þegar kemur að umsvifamestu þjóðum í heimi í laxeldi.