Framfærslukostnaður í Reykjavík er rúmlega 30% hærri en í New York samkvæmt Numebo-gagnagrunninum. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans í dag.
Numbeo skoðar ýmsar hagstærðir og ber saman á milli landa og fylgist meðal annars með framfærslukostnaði í u.þ.b. 6.500 borgum í heiminum og ber þær saman. „Aðferðafræðin er að setja kostnað í New York sem 100 á hverjum tíma og miða aðrar borgir við þá tölu. Samkvæmt nýjustu tölum er Reykjavík í 8. sæti meðal allra þessara borga hvað hæstan framfærslukostnað varðar,“ segir í Hagsjá.
Ef nýjustu tölur Numbeo eru skoðaðar sést að Zürich í Sviss er dýrasta borgin á listanum og þar er framfærslukostnaðurinn 50% hærri en í New York. Hamilton á Bermúda er næst í röðinni og fimm næstu borgir eru allar í Sviss. Þá kemur Reykjavík í 8. sæti með rúmlega 30% hærri framfærslukostnað en New York og síðan eru fjórar norskar borgir í 10.-13. sæti.
„Það er því einungis Hamilton sem kemst upp á milli EFTA-landanna þriggja, Sviss, Íslands og Noregs, í 13 efstu sætunum,“ er bent á í Hagsjá.
Þegar kemur að höfuðborgum Norðurlandanna sést að Reykjavík er langdýrasta borgin og hafa hún og Ósló nokkra sérstöðu. Í hinum þremur borgunum er framfærslukostnaður lægri en í New York.
Á árinu 2011 var Reykjavík í 61. sæti á lista þessara borga hvað varðar framfærslukostnað. Síðan hefur borgin klifrað upp listann og var í 28. sæti 2016 og er í 8. sæti miðað við síðustu tölur. Samanburðurinn við New York breyttist mikið milli 2016 og 2017, Reykjavík var 4% ódýrari 2016 en er 31% dýrari í dag. „Þarna skiptir sambandið á milli krónunnar og dollars miklu máli,“ segir í Hagsjá.
Reykjavík var í 8. sæti á listanum hvað verð á matvöru varðar, dýrust borga á Norðurlöndunum. Skammt á eftir kom Ósló í 13. sæti og Stokkhólmur kom langt þar á eftir í 68. sæti. Ísland og Noregur hafa því mikla sérstöðu meðal Norðurlandanna í þessum samanburði.
Sé verðlag á veitingahúsum skoðað sést að Hamilton á Bermúda er dýrasta borgin og síðan Zug í Sviss. Þar á eftir koma Stavanger og Reykjavík. Kaupmannahöfn er í 14. sæti. Af 13 efstu sætunum eru allar borgirnar ýmist á Íslandi, í Noregi og Sviss fyrir utan Hamilton sem er í fyrsta sæti.