165 kýr hafa verið fluttar inn til Katar frá Þýskalandi til þess að efla framleiðslu mjólkur í landinu og bregðast við viðskiptabönnum sem lögð hafa verið á Katara. Til stendur að flytja alls 4.000 kýr inn til landsins.
Viðskiptabönnin hafa haft slæm áhrif á Katara, sem eru mjög háðir innflutningi.
Kýrnar komu til landsins í farmflugvél Qatar Airways á þriðjudaginn í gegnum Búdapest og voru fluttar í mjólkurbú. Það er katarska félagið Power International sem kaupir kýrnar en í síðasta mánuði sagði stjórnarformaður félagsins Moutaz al-Khayyat að þegar allar kýrnar væru komnar til landsins myndu þær anna um 30% af mjólkurþörfum landsins.
Mjólkurvörurnar verða seldar undir nýju vörumerki sem al-Khayyat hefur stofnað.
Fimm vikur eru liðnar síðan Sádi-Arabía, Barein, Egyptaland og Sameinuðu arabísku furstadæmin settu viðskiptabönn á Katar og sökuðu þá um að styðja hryðjuverkasamtök og að eiga í tengslum við Írani.
Fyrir viðskiptabönnin kom stærstur hluti mjólkurvöru til Katar í gegnum Sádi-Arabíu.