Þorsteinn B. Friðriksson, stofnandi Plain Vanilla, hefur stofnað nýtt fyrirtæki, Teatime ehf., og er tilgangur félagsins m.a. hugbúnaðarþróun og hugbúnaðargerð. Í samtali við mbl.is segir Þorsteinn að fyrirtækið muni starfa í tækniiðnaðinum en við hvað nákvæmlega mun koma betur í ljós seinna.
„Eftir að við seldum QuizUp um áramótin höfum við nokkrir kjarnastjórnendur í Plain Vanilla verið að skoða ýmis tækifæri á þessum markaði. Við vorum ótrúlega heppin með hvað við fengum mikla reynslu í gegnum Quizup,“ segir Þorsteinn en samkvæmt auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu fyrr í mánuðinum er Ýmir Örn Finnbogason, sem var fjármálstjóri Plain Vanilla, í varastjórn Teatime ehf.
Plain Vanilla þróaði og gaf út spurningaleikinn QuizUp sem sló í gegn þegar hann var gefinn út í nóvember árið 2013. Leikurinn var síðan seldur til bandaríska leikjafyrirtækisins Glu Mobile í lok desember á síðasta ári. Þá hafði starfsemi Plain Vanilla hér á landi verið hætt eftir að hætt var við sýningu sjónvarpsútgáfu leiksins í samstarfi við NBC sjónvarpsstöðina, en með því brást rekstrargrundvöllur fyrirtækisins á Íslandi. Öllum 36 starfsmönnum fyrirtækisins hér á landi var sagt upp í kjölfarið.
Þorsteinn segir að nýja fyrirtækið muni starfa í tæknigeiranum, rétt eins og Plain Vanilla. „Við erum að vinna að nýjum hlutum og spennandi tækifærum. En það kemur betur í ljós seinna hvað við erum að bralla.“