Reykjavíkurborg hefur auglýst tillögu að nýju skipulagi á Sprengisandi á Bústaðavegi. Í tillögunni felst uppbygging atvinnuhúsnæðis á þremur lóðum þar sem nú er Bústaðavegur 151.
„Þetta er fyrst og fremst hugsað fyrir atvinnu- og þjónustufyrirtæki. Þetta gæti verið í þremur stökum húsum til að byrja með. Þetta verða þriggja til fjögurra hæða byggingar sem raða sér meðfram Reykjanesbrautinni,“ segir Björn Axelsson skipulagsfulltrúi.
Á lóðinni stendur hesthús Fáks og segir í tillögunni að gert sé ráð fyrir að þar geti risið svipað atvinnuhúsnæði og á nýbyggingarlóðunum þremur í framtíðinni með deiliskipulagsbreytingu.
Hringtorg verður gert á Bústaðavegi við aðkomugötu inn á svæðið sem leiðir að innkeyrslum á lóðir. Gert er ráð fyrir hjólastíg meðfram göngustíg austan lóða við Byggðarenda og undirgöngum undir Bústaðaveg fyrir þessa stíga. Sunnan Bústaðavegar tengjast stígarnir inn á stígakerfi meðfram Bústaðavegi og í undirgöng undir Reykjanesbraut.
Hægt er að skoða tillöguna nánar hér en frestur til að skila skriflegum ábendingum rennur út 25. ágúst.