Verslunin Kr. var opnuð í Vík í Mýrdal í dag. Verslunin er í eigu Festis og tók við af Kjarvals-verslun í bænum en er þó helmingi stærri og með lægra vöruverð. Sveitarstjóri Mýrdalshrepps segir það fagnaðarefni að stórmarkaður sé kominn á Vík í fyrsta skiptið.
„Auðvitað er þetta mikið fagnaðarefni sem og þessi uppbygging hérna í bænum,“ segir sveitarstjóri Mýrdalshrepps, Ásgeir Magnússon en verslunin stendur í 3.800 fermetra verslunarmiðstöð sem búið er að byggja í bænum. „Það hefði nú verið saga til næsta bæjar fyrir nokkrum árum, svona stór verslunarmiðstöð í Vík. En það er ferðaþjónustan sem er að breyta þessu umhverfi okkar,“ segir Ásgeir og bætir við að einnig sé bygging fjölmargra íbúða og að minnsta kosti tveggja hótela í farvatninu í bænum.
Hann segir íbúana spennta fyrir versluninni og þá sérstaklega ef að verðið reynist lægra en þeir eru vanir en þetta er fyrsti alvöru stórmarkaðurinn sem opnar í Vík. „Við erum náttúrulega ekki nema 590 manns hérna og því hefur litla verslunin sem var hér verið ágætlega rúmgóð. En þegar að það koma fimm rútur á bílastæðið gat orðið svolítið þröng. Núna verður þetta allt annað.“
Jón Björnsson, forstjóri Festi segir í samtali við mbl.is að Kr. verslunin sé í raun eins og lítil Krónuverslun og að nafnið Kr. standi einfaldlega fyrir Króna.
„Þessi verslun tekur við af Kjarval og er stærri en þó minni en Krónu-verslanirnar. Fókusinn er á að þjónusta fólkið sem býr í Vík og ferðamennina sem fara í gegnum þessi svæði,“ segir Jón í samtali við mbl.is. Hann segir að með Kr. sé verið að stórauka úrvalið á ferskvöru, grænmeti, ávöxtum og brauði. „Við erum síðan að selja 2.000 vörutegundir á sama verði og í Krónunni þannig við erum að lækka vöruverð þarna töluvert sem er gott bæði fyrir íbúa og ferðamenn.“
Jón segist búast við góðum móttökum og stendur til að breyta öðrum Kjarvalsbúðum í Kr. búðir. Kjarvalsbúðir eru í dag á Hellu, Hvolsvelli, Þorlákshöfn og Kirkjubæjarklaustri. Jón segir að með þessu stefni fyrirtækið að því að einfalda hlutina og lækka vöruverð.