Stefnt er að opnun Mathallarinnar við Hlemm um helgina. „Ef allt gengur áfallalaust fyrir sig munum við opna á laugardaginn,“ segir Ragnar Egilsson, framkvæmdastjóri Mathallarinnar, í samtali við mbl.is.
Hann segir framkvæmdirnar á lokasprettinum. „Þetta lítur rosalega vel út og er allt að koma saman.“
Alls verða tíu staðir með aðstöðu í höllinni og verða sjö þeirra tilbúnir til að opna á laugardaginn. Að sögn Ragnars eru það taco-staðurinn La Poblana, víetnamski staðurinn Bánh Mí, Rabbarbarinn, Te & kaffi, Kröst, Ísleifur heppni og Jómfrúin. Hinir staðirnir verða opnaðir fljótlega að sögn Ragnars.
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Hlemmi og tóku þær töluvert meiri tíma en gert var ráð fyrir. Í fyrstu var gert ráð fyrir að opna mathöllina síðasta haust sem gekk ekki eftir og var áætlaðri opnun þá frestað til vors. Það gekk heldur ekki eftir og opnun frestað fram í júní þar sem framkvæmdir höfðu tekið lengri tíma en ætlað var í fyrstu. Ekki var allt klárt í júní en nú virðist sem hægt verði að opna höllina á laugardaginn. Spurður hvort það verði ekki mikill léttir segir Ragnar að það verði eflaust góð tilfinning. „Ég anda léttar á sunnudaginn.“