Í fyrsta skipti á Íslandi hefst gjaldtaka fyrir hleðslu rafbíla á völdum rafhleðslustöðvum en það er Ísorka sem ríður á vaðið í dag, föstudaginn 18. ágúst. „Er þetta gert til þess að flýta innviðauppbyggingu fyrir rafbíla en hingað til hefur hleðsla verið ókeypis á rafhleðslustöðvum,“ segir í fréttatilkynningu frá Ísorku.
,,Ég tek undir orð Bjartrar Ólafsdóttur umhverfisráðherra um að rafbílar séu helsta vopn Íslendinga í baráttunni við loftslagsbreytingar og deili með henni þeirri hugsjón að landið verði rafbílavætt á næstu árum og áratugum. Þó er ljóst að hleðslustöðvar fyrir rafbíla mun ekki fjölga í takt við þörf nema með gjaldtöku því þannig skapast hvati til að fjölga hleðslustöðvum og bæta þjónustu við rafbílaeigendur,“ er haft eftir Sigurði Ástgeirssyni, verkefnastjóra hjá Ísorku.
Hann bætir við að nú sé mikilvægt að sem flestir sem bjóða hleðslu fyrir rafbíla sýni samstöðu og geri slíkt hið sama, til þess að rafbílavæðing Íslands verði raunhæf á næstu árum, ,,Við erum í mun betri aðstöðu en margar aðrar þjóðir til að gera þetta vel enda með aðgang að umhverfisvænu rafmagni. Það gerist hins vegar ekki á meðan hleðsla er gefin, ýmist á kostnað einkafyrirtækja eða skattgreiðenda.“