Eftir slétta viku, laugardaginn 26. ágúst, verður fyrsta verslun sænska tískurisans H&M opnuð hér á landi. Það er vel hægt að gera ráð fyrir því að margir geri sér ferð í verslunina sem stendur í Smáralind á opnunardaginn og næstu daga enda hefur H&M verið mjög vinsæl hjá íslenskum neytendum á ferðalögum erlendis.
Íslendingar hafa lengi vel velt því fyrir sér hvenær H&M kæmi eiginlega til Íslands, enda er verslunin með starfsemi um allan heim, allt frá Suður-Afríku til Mexíkó. Þá eru verslanir H&M í 33 Evrópulöndum og var það mat margra að það væri aðeins tímaspursmál hvenær Ísland yrði eitt af þeim.
Það var í apríl á síðasta ári sem að DV greindi frá því að H&M væri á leið til landsins og að tvær verslanir yrðu opnaðar, á Hafnartorgi og Smáralind en báðar verslunarmiðstöðvarinnar eru í eigu fasteignafélagsins Regins. Það kom þó fram átta mánuðum fyrr í viðskiptablaði Morgunblaðsins að Reginn væri í viðræðum í við H&M varðandi Hafnartorgið en að sænski risinn væri aðeins eitt nafn á lista.
Forstjóri Regins, Helgi S. Gunnarsson, sagðist þá í samtali við Viðskiptamoggann hafa mikla trú á því að verslunarrýmið sem fyrirhugað er á Hörpureitnum muni draga öflug alþjóðleg verslunarfyrirtæki til landsins.
„Við ætlum að laða heimsþekkt vörumerki inn í þessi rými. Ráðgjafar okkar eru farnir að kynna möguleikana sem liggja þarna. Það gera þeir á sýningum víða um heiminn og meðal þeirra aðila sem þeir munu ræða við er að sjálfsögðu H&M, sem þeir hafa einmitt starfað töluvert með á síðustu árum. Við erum þó að sjálfsögðu í samtali við marga stóra aðila og höfum raunar verið að skanna allan markaðinn.“
Eftir að frétt DV birtist í apríl um að viðræður Regins við H&M væru á lokastigi sagði Helgi í samtali við mbl.is það ekki rétt.
Sagði hann Regin stöðugt eiga í viðræðum við fjölmarga mögulega leigutaka og að fyrirtækið greini ekki frá einstökum viðræðum.
„Það er ekki þannig að leigusamningur sé fyrirliggjandi eða að formlegar viðræður séu hafnar,“ segir hann. „En að sjálfsögðu standa yfir þreifingar við tugi og hundruð væntanlegra leigutaka.“
Aðspurður hvort viðræðurnar við H&M séu þá ekki á lokametrunum sagði Helgi: „Langt frá því“.
Í júlí, eða um þremur mánuðum seinna greindi Reginn frá því að félagið hafi undirritað leigusamninga við dótturfélag H&M Hennes & Mauritz AB (publ.) um húsnæði undir tvær verslanir undir merkjum H&M, annars vegar í Smáralind og á Hafnartorgi, og að þær myndu vera opnaðar 2017 og 2018.
„Það er búið að vinna að þessu verkefni lengi og við erum rosalega ánægð að þetta hafi tekist,“ sagði Helgi þá í samtali við mbl.is. Sagðist hann jafnframt búast við því að koma verslananna myndi að öllum líkindum hafa gríðarleg áhrif á íslenskan markað.
„Við teljum að þetta verði gríðarleg breyting á verslunarmarkaðinum á Íslandi. Þetta er með sterkari fyrirtækjum á þessum markaði í heiminum og eins og við vitum eru þeir með mjög hagstætt verð á fötum. Við teljum að það geti haft mikil áhrif eins og á verðlagningu,“ sagði Helgi í samtali við mbl.is. Þá var ekki hægt að gefa upp í hvaða pláss í Smáralind H&M myndi vera opnuð. Þá sagði hann jafnframt að vinna Regins að því að fá H&M til Íslands hafi staðið yfir í tvö ár.
„Svona samningar nást bara með mikilli skipulagningu og réttum vinnubrögðum,“ sagði Helgi. „Við erum rosalega ánægð með þetta.“
Aðeins um klukkustund síðar sendi fasteignafélagið Reitir, sem á Kringluna, frá sér tilkynningu þar sem fram kom að félagið hafi undanfarið átt í samningaviðræðum við H&M um opnun verslunar á þeirra vegum í Kringlunni. Þar kom jafnframt fram að viðræðunum væri ekki lokið en stefnt væri að því að verslunin yrði opnuð seinnihluta ársins 2017.
Viðbrögðin við fréttum dagsins voru mjög jákvæð. „Þetta er ákveðin viðurkenning fyrir íslenska verslun, íslenskt efnahagslíf, Reykjavík sem verslunarborg og þá umgjörð sem hér er,“ sagði til að mynda Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Þá var það mat Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, að koma H&M muni hafa þau áhrif að verslun sem hefur farið úr landi flytjist í auknum mæli heim.
Einnig var rætt við verslunarfólk hér á landi sem voru sammála um það að taka ætti komu H&M hingað fagnandi. Svava Johansen, eigandi NTC-tískukeðjunnar, Finnur Árnason, forstjóri Haga, og Albert Þór Magnússon, umboðsaðili Lindex, voru öll sammála um að koma H&M væri gleðitíðindi.
Það var síðan í október sem greint var frá því að til stæði að verslunin í Smáralind yrði opnuð í september en því var síðan flýtt í ágúst. Þar kom einnig fram að verslunin muni taka yfir 4.000 fermetra rými í Smáralind sem hýsti áður Debenhams. Þá sagði framkvæmdastjóri Smáralindar að verslun H&M í Smáralind yrði svokölluð „flaggskipsverslun“.
Í sömu frétt kom fram að verslunin í Kringlunni yrði opnuð fyrir næstu áramót og á Hafnartorgi á næsta ári. Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hvenær nákvæmlega verslunin í Kringlunni verður opnuð en í samtali við mbl.is í júní sagði framkvæmdastjóri verslunarmiðstöðvarinnar gera ráð fyrir því að það yrði í september.
Talandi um Smáralind og Kringluna, þá hafa verið gerðar töluverðar breytingar á þeim síðan að koma H&M var tilkynnt.
Fyrst ber að nefna Debenhams en versluninni var lokað um áramótin eftir að hafa verið þar frá upphafi. H&M kemur í gamla rými Debenhams sem er rúmir 4.000 fermetrar að stærð. Miklar breytingar verið gerðar á Hagkaups-verslun á neðri hæð Smáralindar þar sem verslunin var minnkuð um 4.800 fermetra. Þá er búið að loka verslunum Topshop og Dorothy Perkins á 2. Hæð en þær voru báðar í eigu Haga, rétt eins og Hagkaup. Reyndar verður Topshop í Kringlunni líka lokað á næstunni og þá lýkur 17 ára sögu keðjunnar hér á landi og þá var Warehouse í Kringlunni, sem var líka í eigu Haga, lokað fyrr á þessu ári.
Í Kringlunni hefur einnig verið mikið um breytingar. H&M verður á 2. Hæð í rými sem áður hýsti Hagkaup. Þeirri verslun var lokað í febrúar og fyrr í þessum mánuði var Hagkaup á neðri hæð Kringlunnar lokað vegna framkvæmda við uppsetningu á nýrri verslun sem mun opna í október. Markmið Hagkaupa er að breyta útlitinu og bæta nýtinguna með sama móti og í Smáralind.
Verslun Next sem hefur verið á annarri hæð Kringlunnar í fjölda ára verður færð um set og opnuð í minna rými við hlið H&M. Í rýmið sem áður hýsti Next kemur leikfangaverslunin ToysRus.
Það er nokkuð ljóst að Íslendingar eru spenntir fyrir komu H&M og sést það t.d. á lestrartölum fjölmiðla á fréttum um málið. Það sást þó líka í fjölda þeirra sem sóttu um starf hjá fyrirtækinu en umsóknirnar voru ríflega eitt þúsund talsins. Eins og staðan er núna hafa rúmlega 70 verið ráðnir.
Ráðningarferlið hófst í febrúar þegar að fulltrúar hittu umsækjendur í Reykjavík. Í apríl var búið að ráða ákveðinn hóp, m.a. tvo verslunarstjóra sem voru sendir í þriggja mánaða starfsþjálfun til Varjsár í Póllandi.
Í byrjun maí greindi Smáralind frá því að framkvæmdir við rými H&M væru á undan áætlun og því yrði opnað í ágúst í stað september. Rýminu var síðan skilað til sænsku keðjunnar í júní og í júlí var tilkynnt um opnunardaginn sjálfan, 26. ágúst. Skarpir taka eflaust eftir því að aðeins ein lítil vika er í stóra daginn og því er spennan farin að magnast upp.
Þá er enn stefnt að því að H&M á annarri hæð Kringlunnar verði opnað í september að sögn framkvæmdastjóra Kringlunnar.
En hvernig verður verðið?
Það er eflaust það sem íslenskir neytendur verða hvað spenntastir að komast að. Þegar þetta er skrifað eru verð ekki komin inn á heimasíðu H&M á Íslandi og því erfitt að segja til um það en fyrr í mánuðinum birti Vísir verðdæmi á nokkrum vörum sem komu frá fyrirtækinu. Þau virtust nokkuð ódýr en eins og Nútíminn benti á var allt að 60% verðmunur á vörunum í verðdæmunum og á verðunum í H&M í Bretlandi.
En nú er loksins komið að þessu og nú verður forvitnilegt að sjá hvernig Íslendingar taka þessum risa á markaðinum og hvaða áhrif hann mun hafa á verslun hér á landi. Munu Íslendingar hætta að fara til útlanda? Líklega ekki en stoppið í H&M í sólarlandarferðinni verður eflaust minna mikilvægt en áður.