Búðin sem beðið hefur verið eftir

H&M verður opnað í Smáralind eftir viku.
H&M verður opnað í Smáralind eftir viku. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Eftir slétta viku, laugardaginn 26. ágúst, verður fyrsta verslun sænska tískurisans H&M opnuð hér á landi. Það er vel hægt að gera ráð fyrir því að margir geri sér ferð í verslunina sem stendur í Smáralind á opnunardaginn og næstu daga enda hefur H&M verið mjög vinsæl hjá íslenskum neytendum á ferðalögum erlendis.

Íslendingar hafa lengi vel velt því fyrir sér hvenær H&M kæmi eiginlega til Íslands, enda er verslunin með starfsemi um allan heim, allt frá Suður-Afríku til Mexíkó. Þá eru verslanir H&M í 33 Evrópulöndum og var það mat margra að það væri aðeins tímaspursmál hvenær Ísland yrði eitt af þeim.

16 mánaða saga

Það var í apríl á síðasta ári sem að DV greindi frá því að H&M væri á leið til landsins og að tvær verslanir yrðu opnaðar, á Hafnartorgi og Smáralind en báðar verslunarmiðstöðvarinnar eru í eigu fasteignafélagsins Regins. Það kom þó fram átta mánuðum fyrr í viðskiptablaði Morgunblaðsins að Reginn væri í viðræðum í við H&M varðandi Hafnartorgið en að sænski risinn væri aðeins eitt nafn á lista.

Forstjóri Regins, Helgi S. Gunnarsson, sagðist þá í samtali við Viðskiptamoggann hafa mikla trú á því að versl­un­ar­rýmið sem fyr­ir­hugað er á Hörpureitn­um muni draga öfl­ug alþjóðleg versl­un­ar­fyr­ir­tæki til lands­ins.

„Við ætl­um að laða heimsþekkt vörumerki inn í þessi rými. Ráðgjaf­ar okk­ar eru farn­ir að kynna mögu­leik­ana sem liggja þarna. Það gera þeir á sýn­ing­um víða um heim­inn og meðal þeirra aðila sem þeir munu ræða við er að sjálf­sögðu H&M, sem þeir hafa ein­mitt starfað tölu­vert með á síðustu árum. Við erum þó að sjálf­sögðu í sam­tali við marga stóra aðila og höf­um raun­ar verið að skanna all­an markaðinn.“

Eftir að frétt DV birtist í apríl um að viðræður Regins við H&M væru á lokastigi sagði Helgi í samtali við mbl.is það ekki rétt.

Sagði hann Regin stöðugt eiga í viðræðum við fjöl­marga mögu­lega leigu­taka og að fyr­ir­tækið greini ekki frá ein­stök­um viðræðum.

„Það er ekki þannig að leigu­samn­ing­ur sé fyr­ir­liggj­andi eða að form­leg­ar viðræður séu hafn­ar,“ seg­ir hann. „En að sjálf­sögðu standa yfir þreif­ing­ar við tugi og hundruð vænt­an­legra leigu­taka.“

Aðspurður hvort viðræðurn­ar við H&M séu þá ekki á loka­metr­un­um sagði  Helgi: „Langt frá því“.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins.
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samningar undirritaðir í júlí

Í júlí, eða um þremur mánuðum seinna greindi Reginn frá því að félagið hafi undirritað leigu­samn­inga við  dótt­ur­fé­lag H&M Henn­es & Mauritz AB (publ.) um hús­næði und­ir tvær versl­an­ir und­ir merkj­um H&M, annars vegar í Smáralind og á Hafnartorgi, og að þær myndu vera opnaðar 2017 og 2018.

„Það er búið að vinna að þessu verk­efni lengi og við erum rosa­lega ánægð að þetta hafi tek­ist,“ sagði Helgi þá í samtali við mbl.is. Sagðist hann jafnframt búast við því að koma versl­an­anna myndi að öll­um lík­ind­um hafa gríðarleg áhrif á ís­lensk­an markað.

„Við telj­um að þetta verði gríðarleg breyt­ing á versl­un­ar­markaðinum á Íslandi. Þetta er með sterk­ari fyr­ir­tækj­um á þess­um markaði í heim­in­um og eins og við vit­um eru þeir með mjög hag­stætt verð á föt­um. Við telj­um að það geti haft mik­il áhrif eins og á verðlagn­ingu,“ sagði Helgi í samtali við mbl.is. Þá var ekki hægt að gefa upp í hvaða pláss í Smáralind H&M myndi vera opnuð. Þá sagði hann jafnframt að vinna Regins að því að fá H&M til Íslands hafi staðið yfir í tvö ár.

„Svona samn­ing­ar nást bara með mik­illi skipu­lagn­ingu og rétt­um vinnu­brögðum,“ sagði Helgi. „Við erum rosa­lega ánægð með þetta.“

Kringlan afhjúpaði sínar áætlanir sama dag

Aðeins um klukkustund síðar sendi fasteignafélagið Reitir, sem á Kringluna, frá sér tilkynningu þar sem fram kom að félagið hafi undanfarið átt í samningaviðræðum við H&M um opnun verslunar á þeirra vegum í Kringlunni. Þar kom jafnframt fram að viðræðunum væri ekki lokið en stefnt væri að því að verslunin yrði opnuð seinnihluta ársins 2017.

Rétt eins og Smáralind stendur mikið til í Kringlunni vegna …
Rétt eins og Smáralind stendur mikið til í Kringlunni vegna komu H&M. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Viðbrögðin við fréttum dagsins voru mjög jákvæð. „Þetta er ákveðin viður­kenn­ing fyr­ir ís­lenska versl­un, ís­lenskt efna­hags­líf, Reykja­vík sem versl­un­ar­borg og þá um­gjörð sem hér er,“ sagði til að mynda Stefán Broddi Guðjóns­son, for­stöðumaður grein­ing­ar­deild­ar Ari­on banka. Þá var það mat Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, að koma H&M muni hafa þau áhrif að versl­un sem hef­ur farið úr landi flytj­ist í aukn­um mæli heim.

Einnig var rætt við verslunarfólk hér á landi sem voru sammála um það að taka ætti komu H&M hingað fagnandi. Svava Johan­sen, eig­andi NTC-tísku­keðjunn­ar, Finnur Árna­son, for­stjóri Haga, og Al­bert Þór Magnús­son, umboðsaðili Lindex, voru öll sammála um að koma H&M væri gleðitíðindi. 

Út með Debenhams, inn með H&M

Það var síðan í október sem greint var frá því að til stæði að verslunin í Smáralind yrði opnuð í september en því var síðan flýtt í ágúst. Þar kom einnig fram að verslunin muni taka yfir 4.000 fermetra rými í Smáralind sem hýsti áður Debenhams. Þá sagði framkvæmdastjóri Smáralindar að verslun H&M í Smáralind  yrði svokölluð „flaggskipsverslun“.

Í sömu frétt kom fram að verslunin í Kringlunni yrði opnuð fyrir næstu áramót og á Hafnartorgi á næsta ári. Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hvenær nákvæmlega verslunin í Kringlunni verður opnuð en í samtali við mbl.is í júní sagði framkvæmdastjóri verslunarmiðstöðvarinnar gera ráð fyrir því að það yrði í september.

Rýmingarsala Debenhams fór fram í janúar. Þar voru m.a. seldar …
Rýmingarsala Debenhams fór fram í janúar. Þar voru m.a. seldar gínur. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Miklar breytingar á verslunarmiðstöðvunum

Talandi um Smáralind og Kringluna, þá hafa verið gerðar töluverðar breytingar á þeim síðan að koma H&M var tilkynnt.

Fyrst ber að nefna Debenhams en versluninni var lokað um áramótin eftir að hafa verið þar frá upphafi. H&M kemur í gamla rými Debenhams sem er rúmir 4.000 fermetrar að stærð. Miklar breytingar verið gerðar á Hagkaups-verslun á neðri hæð Smáralindar þar sem verslunin var minnkuð um 4.800 fermetra. Þá er búið að loka verslunum Topshop og Dorothy Perkins á 2. Hæð en þær voru báðar í eigu Haga, rétt eins og Hagkaup. Reyndar verður Topshop í Kringlunni líka lokað á næstunni og þá lýkur 17 ára sögu keðjunnar hér á landi og þá var Warehouse í Kringlunni, sem var líka í eigu Haga, lokað fyrr á þessu ári.

Í Kringlunni hefur einnig verið mikið um breytingar. H&M verður á 2. Hæð í rými sem áður hýsti Hagkaup. Þeirri verslun var lokað í febrúar og fyrr í þessum mánuði var Hagkaup á neðri hæð Kringlunnar lokað vegna framkvæmda við upp­setn­ingu á nýrri versl­un sem mun opna í októ­ber. Markmið Hagkaupa er að breyta út­lit­inu og bæta nýt­ing­una með sama móti og í Smáralind. 

Verslun Next sem hefur verið á annarri hæð Kringlunnar í fjölda ára verður færð um set og opnuð í minna rými við hlið H&M. Í rýmið sem áður hýsti Next kemur leikfangaverslunin ToysRus.

Þúsund sóttu um en um 70 ráðnir

Það er nokkuð ljóst að Íslendingar eru spenntir fyrir komu H&M og sést það t.d. á lestrartölum fjölmiðla á fréttum um málið. Það sást þó líka í fjölda þeirra sem sóttu um starf hjá fyrirtækinu en umsóknirnar voru ríflega eitt þúsund talsins. Eins og staðan er núna hafa rúmlega 70 verið ráðnir.

Ráðningarferlið hófst í febrúar þegar að fulltrúar hittu umsækjendur í Reykjavík. Í apríl var búið að ráða ákveðinn hóp, m.a. tvo verslunarstjóra sem voru sendir í þriggja mánaða starfsþjálfun til Varjsár í Póllandi.

Í byrjun maí greindi Smáralind frá því að framkvæmdir við rými H&M væru á undan áætlun og því yrði opnað í ágúst í stað september. Rýminu var síðan skilað til sænsku keðjunnar í júní og í júlí var tilkynnt um opnunardaginn sjálfan, 26. ágúst. Skarpir taka eflaust eftir því að aðeins ein lítil vika er í stóra daginn og því er spennan farin að magnast upp.

Þá er enn stefnt að því að H&M á annarri hæð Kringlunnar verði opnað  í september að sögn framkvæmdastjóra Kringlunnar.

Allt að 60% verðmunur

En hvernig verður verðið?

Það er eflaust það sem íslenskir neytendur verða hvað spenntastir að komast að. Þegar þetta er skrifað eru verð ekki komin inn á heimasíðu H&M á Íslandi og því erfitt að segja til um það en fyrr í mánuðinum birti Vísir verðdæmi á nokkrum vörum sem komu frá fyrirtækinu. Þau virtust nokkuð ódýr en eins og Nútíminn benti á var allt að 60% verðmunur á vörunum í verðdæmunum og á verðunum í H&M í Bretlandi.

En nú er loksins komið að þessu og nú verður forvitnilegt að sjá hvernig Íslendingar taka þessum risa á markaðinum og hvaða áhrif hann mun hafa á verslun hér á landi. Munu Íslendingar hætta að fara til útlanda? Líklega ekki en stoppið í H&M í sólarlandarferðinni verður eflaust minna mikilvægt en áður. 

Búið er að koma H&M skilti fyrir utan á Smáralind.
Búið er að koma H&M skilti fyrir utan á Smáralind. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK