Skoða opnun fleiri verslana á Íslandi

Filip Ekvall, svæðisstjóri H&M í Noregi og á Íslandi, og …
Filip Ekvall, svæðisstjóri H&M í Noregi og á Íslandi, og Karl-Johan Persson, forstjóri H&M-samstæðunnar. mbl.is/Ófeigur

Forsvarsmenn H&M ætla í framhaldi af opnun tveggja verslana undir merkjum H&M hér á landi í dag og í september að skoða möguleikann á að opna hér fleiri verslanir sem heyra undir samstæðuna. Þetta segja þeir Karl-Johan Persson, forstjóri H&M samstæðunnar, og Filip Ekvall, svæðisstjóri H&M í Noregi og á Íslandi, í samtali við mbl.is. Þeir eru nú staddir hér á landi vegna opnunar verslunar H&M í Smáralind í dag.

Verslanir H&M hafa löngum verið viðkomustaður Íslendinga á ferðalagi erlendis, en það sást hvað best á því að talið er að um þriðjungur af öllum barnafötum sem Íslendingar kaupa hafi undanfarin ár verið keyptur í erlendum verslunum fyrirtækisins. Þá þykir líklegt að H&M-verslanir erlendis séu meðal stærstu ef ekki stærsta fataverslun sem Íslendingar eiga í viðskiptum við almennt.

Hófu undirbúning að opnun fyrir tveimur árum

Persson segir að hjá H&M hafi í nokkurn tíma verið horft til Íslands meðal annars vegna þessa mikla áhuga Íslendinga. Hann segir Ísland vera áhugaverðan markað, en um leið erfiðan landfræðilega séð og þá skipti smæð markaðarins máli í þessu sambandi. „Við höfum horft á þennan markað í nokkurn tíma, en raunverulegur undirbúningur hefur staðið yfir í tvö ár,“ segir Persson.

Ekvall segir að mikill áhugi Íslendinga skipti mestu máli um þá ákvörðun að opna núna, en þá hafi þeir líka fundið tvær góðar staðsetningar, bæði í Smáralind og í Kringlunni. „Við erum ánægðir að koma með þessa verslun til Íslands. Við erum greinilega með sterkan viðskiptavinahóp, en með þessu færum við búðirnar nær þeim hóp. Aðgengi fyrir alla Íslendinga er okkur mikilvægt,“ segir hann og bætir við að til framtíðar sjái þeir mikla möguleika á Íslandi.

Filip Ekvall, svæðisstjóri H&M í Noregi og á Íslandi, og …
Filip Ekvall, svæðisstjóri H&M í Noregi og á Íslandi, og Karl-Johan Persson, forstjóri H&M-samstæðunnar, settust niður með blaðamanni mbl.is fyrir opnun verslunarinnar í dag og ræddu um áform H&M hér á landi og stefnu fyrirtækisins í víðara samhengi. mbl.is/Ófeigur

Skoða möguleika á að opna fleiri keðjur hér á landi

„Við erum að horfa á fleiri möguleika með aðrar verslanir,“ segir Persson. „H&M Home, & Other stories, Cos, Monki og Arket, sem við opnuðum í gær í London eru meðal þess sem horft er til, en það er þó ekkert ákveðið. Það gæti verið mikill möguleiki fyrir hin merkin ef H&M gengur vel,“ bætir hann við.

Það er ljóst að talsverð greiningarvinna hefur farið fram á íslenska markaðinum hjá fyrirtækinu og segir Persson að þeir séu þess fullvissir að H&M muni koma með „eitthvað nýtt inn á markaðinn“. Nefnir hann þar fjölbreytileika, að neytendur fái sem mest fyrir peninginn og sjálfbærni.

Mikil gagnrýni á tískuiðnaðinn á undanförnum árum

H&M, eins og margar aðrar stórar alþjóðlegar fatakeðjur, hefur verið gagnrýnt á undanförnum árum fyrir að notast við ódýrt vinnuafl í fátækustu löndum heims við framleiðslu á fatnaði og að ýta undir hraða og mikla endurnýjun fatnaðar sem sé óumhverfisvænt með ódýrum tískufatnaði (e. fast fashion industry). Persson segir að mikilvægt sé að rætt sé um þessi mál og að H&M taki þau alvarlega. Hann er þó ekki sammála þeim neikvæðu áhrifum sem rætt hefur verið um, en að enn geti H&M og tískuiðnaðurinn bætt sig heilmikið.

Segir Persson að sjálfbærni sé hluti af stefnu H&M og að meðal tískufyrirtækja á alþjóðamarkaði standi H&M fremst. „Það er margt sem á eftir að gera hjá okkur og iðnaðinum í heild, en við erum að gera margt jákvætt í þessum málum,“ segir hann.

Talsverður fjöldi fólks var mættur fyrir utan verslun H&M í …
Talsverður fjöldi fólks var mættur fyrir utan verslun H&M í morgun áður en hún var opnuð. mbl.is/Ófeigur

Segir H&M vinna stöðugt að því að efla sjálfbærni

„Sumir gera þau mistök þegar þeir sjá verðmiðann og sjá gott verð að telja að eitthvað hljóti að vera að, en það þarf að skoða betur hvað fyrirtækið er að gera,“ segir Persson. Nefnir hann meðal annars verkefni fyrirtækisins að koma í veg fyrir að börn vinni í fataverksmiðjum sem framleiði föt fyrir keðjuna, en slík mál hafa komið upp í gegnum tíðina. Þá segir hann H&M í dag vinna mikið að því að reyna að endurvinna og endurnýta fatnað til að bæta umhverfisspor fyrirtækisins. Þannig taki þeir meðal annars á móti notuðum fötum frá viðskiptavinum og séu þau nýtt í framleiðslu á nýjum vörum. Segir hann að fyrirtækið fjárfesti mikið í þessum lausnum og 200 manns starfi hjá fyrirtækinu við að vinna að sjálfbærni.

Persson segir neysluna eina og sér þó ekki vera slæman hlut og að neysla standi undir framþróun. „Neysla er góð og ýtir undir efnahagslega þróun sem býr til störf, skóla, sjúkrahús og fleira. Neyslan er ekki neikvæði hlutinn, en við viljum tengja neysluna við umhverfisvernd og sjálfbærni,“ segir hann.

Alltaf í fatnaði frá H&M sjálfur

Persson er í hópi ríkustu einstaklinga heims, en hann er barnabarn stofnanda H&M og sonur Stefan Persson, sem er ríkastur allra Svía. Eignir Karl-Johan Persson eru metnar á 2,1 milljarða dala samkvæmt tímaritinu Forbes. Það er því ekki úr vegi að spyrja þá hvort hann gangi daglega í fatnaði frá fatakeðjunni sem hann stýrir og hefur verið þekkt fyrir nokkuð lágt vöruverð. Það stendur ekki á svarinu. „Alltaf,“ segir hann og bætir við að þó að hann eigi einhverjar flíkur frá öðrum verslunum þá sé stærsti hlutinn í fataskápnum hans frá H&M og öðrum vörumerkjum í eigu samstæðunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK