Héraðsdómur Reykjaness veitti í dag United Silicon greiðslustöðvun í þrjá mánuði, eða til 4. desember, svo að freista megi þess að ná að koma rekstri verksmiðjunnar á réttan kjöl.
Þetta segir Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður sem er aðstoðarmaður skuldarans á greiðslustöðvunartíma.
Kröfuhafar United Silicon samþykktu fyrir helgi að óskað yrði eftir framlengingu á greiðslustöðvun félagsins svo að unnt sé að finna lausn á vanda þess. Meðal kröfuhafa eru Arion banki, Íslenskir aðalverktakar, Landsvirkjun, Reykjanesbær og ítalska fyrirtækið Tenova sem seldi United Silicon ljósbogaofninn.
Arion banka hefur lánað félaginu 8 milljarða króna og Íslenskir aðalverkatakar eiga kröfu upp á einn milljarð króna samkvæmt gerðardómi. Þá skuldar United Silicon Reykjanesbæ 162 milljónir króna.
Greiðslustöðvun er úrræði sem skuldarar og kröfuhafar geta nýtt til þess að ráða bót á fjárhagserfiðleikum, annaðhvort með því að semja um ný greiðslukjör og koma eignum í verð til þess að geta framvegis ráðið við greiðslur, eða með því að leggja drög að niðurfærslu á skuldum með nauðasamningi.
Meðan á greiðslustöðvun stendur gildir almennt að skuldara er óheimilt að ráðstafa eignum sínum og stofna til skuldbindinga á hendur sér.