Heildarfjárheimild til húsnæðisstuðnings samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er áætluð 13.393 milljónir króna og lækkar í heildina um 957 milljónir króna frá gildandi fjárlögum. Greiðsla til stofnframlaga vegna nýrra félagslegra leiguíbúða hækkar aftur á móti um 1,5 milljarða króna en í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði árið 2015 gaf þáverandi ríkisstjórn út yfirlýsingu um aðgerðir í húsnæðismálum. Í yfirlýsingunni voru gefin fyrirheit um byggingu allt að 2.300 félagslegra leiguíbúða á vegum sveitarfélaga og félagssamtaka á fjórum árum. Til að tryggja framgang þessa verkefnis hækkar framlagið því um einn og hálfan milljarð þannig að til ráðstöfunar verði þrír milljarðar fyrir árið 2018 og gert er ráð fyrir að sama fjárhæð verði til ráðstöfunar 2019.
Lækkunin er að mestu tilkomin vegna lækkunar á framlagi til vaxtabóta sem lækka um rúma 2 milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að fjárheimild til greiðslu vaxtabóta verði 4 milljarðar á næsta ári og þá er miðað við sömu reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir og nú eru í gildi.
Íbúðalánasjóður hefur umsjón með úthlutun stofnstyrkja ríkisins en uppbygging leiguheimila nýtur einnig styrkja frá sveitarfélögunum. Stofnframlög eru veitt til byggingar eða kaupa á leiguheimilum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, t.d. námsmenn, ungt fólk, aldraðir og fatlaðir. Stofnframlög ríkisins eru 18% af stofnvirði almennrar íbúðar en heimilt er að veita allt að 4% viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og vegna íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum eða öryrkjum.
Í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu segir að margir búi við háan húsnæðiskostnað og þurfi að komast í öruggt húsnæði. Með tilkomu leiguheimila getur fólk sem er undir ákveðnum tekjumörkum komist í langtímaleigu á verði sem er 20-30% lægra en markaðsverð á leigumarkaðnum í dag.