Weetabix er sú vara sem hefur valdið Costco á Íslandi mestum vonbrigðum en jarðaberin hafa verið feykivinsæl. Þetta segir Steve Pappas, framkvæmdastjóri Costco í Evrópu, sem sat fyrir svörum á fjármálaþingi Íslandsbanka í dag.
„Costco elskar Ísland, þetta hefur gengið mjög vel. Það voru efasemdaraddir innan fyrirtæksins en Ísland hefur farið fram úr væntingum,“ segir Pappas.
Costco lítur venjulega ekki til borga með færri en milljón íbúa að sögn Pappas en hann segir að fulltrúar Costco hafi komið auga á tækifærið eftir heimsókn til Íslands. „Við hugsuðum með okkur að hér væru skynsamir kaupendur og að við gætum sparað þeim töluverðar fjárhæðir.“
Sala á jarðarberjum hefur farin fram úr væntingum en spurður um mestu vonbrigðin nefnir Pappas morgunkornið Weetabix. „Það smakkast eins og pappasjald en það á að vera hollt fyrir mann.“
Hann telur að innkoma Costco á markaðinn hafi verið jákvæð á heildina litið. Annars vegar hafi samkeppnisumhverið á matvörumarkaði batnað og hins vegar stefni Costco að því að koma íslenskum vörum í dreifikerfi fyrirtækisins og flytja þær út í erlendar verslanir þess.
Spurður um gæði íslenskra vara segir Pappas að þau séu misjöfn. „Við sjáum gæði í svínakjöti, kjúklingi og fiski en það sama gildir ekki um nautakjöt. Við erum að vinna með bændum til að bæta gæði þess og framleiðslu.“
Pappas neitar því að Costco selji vörur undir kostnaðarverði en tekur fram að álagningin sé næfurþunn. Þá segir hann að ekki sé í myndinni að fjölga verslunum að svo stöddu.