Dökk mynd af framtíðarhorfum hafna

Frá Landeyjarhöfn.
Frá Landeyjarhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Flestar hafnirnar eiga erfitt með að standa undir viðhaldi og þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar eru á næstu árum en uppsöfnuð viðhaldsþörf nemur sex milljörðum króna. Lagt er til að hagkvæmni vegna sameiningar hafna verði könnuð. 

Í skýrslu um ástand og framtíðar­horf­ur innviða á Íslandi, sem kynnt var á opn­um fundi Samtaka Iðnaðarins í morg­un, er dregin upp dökk mynd af framtíðarhorfum hafna þó að núverandi ástand þyki nokkuð gott. 

Þar segir að gert sé ráð fyrir mikilli aukningu í heildarvöruflutningum um hafnir landsins til ársins 2027. Til að mynda megi búast við töluverðri uppbyggingu í tengslum við iðnað eða til að koma til móts við breytingar í fiskiskipaflotanum eða útgerðarháttum.

Vísað er til upplýsinga frá Hafnasambandinu þar sem töluverð þörf er sögð á framkvæmdum í höfnum, bæði til viðhalds og nýframkvæmda á næstu árum. Metið er að þörf sé á viðhaldi sem nemur um 5,5 milljörðum króna og nýframkvæmdum sem nema um 23 milljörðum króna fram til 2020 eða um 4,7 milljarðar króna alls á ári samkvæmt áætluninni sem gerð var fyrir árin 2015–2020.

Ætla skýrsluhöfundar að árleg viðbótarfjárþörf sé um 2,2 milljarðar króna á næstu árum ef standa á undir áætlaðri viðhalds- og framkvæmdaþörf en árrleg framlög á tímabilinu til 2027 eru rétt yfir milljarður króna samkvæmt Samgönguáætlun.

Í skýrslunni segir að því sé ljóst að þegar þessar kostnaðartölur séu skoðaðar með hliðsjón af fjárhagsstöðu hafnasjóða þá eigi flestar hafnirnar erfitt með að standa undir viðhaldi og þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar séu á næstu árum.

Níu með neikvætt veltufé

Meðal ráðlegginga í skýrslunni er að hagkvæmni sem hljótist af sameiningu hafna verði könnuð. Líklegt sé að unnt sé að ná fram enn betri landnýtingu og verkaskiptingu með þeim hætti, til dæmis með stofnun sameignarfélags um fleiri hafnir líkt og gert hafi verið á sínum tíma um rekstur Faxaflóahafna.

Alls eru 70 hafnir á Íslandi sem eru aðildarhafnir að Hafnasambandi Íslands og standa þær missterkum fótum. Hlutfallslega er þörfin talin mjög mikil hjá Reykhólahöfn, Djúpavogshöfn og Þorlákshöfn. Þá voru níu aðrar hafnir með neikvætt veltufé frá rekstri á árinu 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK