Vilja skoska leið í flugið

Ljósmynd/Sigurður Bogi Sævarssn

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar á Austurlandi, kallar eftir því að farin verði svokölluð skosk leið í innanlandsflugi. Markmiðið leiðarinnar er að auka aðgengi að flugþjónustu á viðráðanlegu verði frá jaðarbyggðum í Skotlands. Það er gert með því að ríkið greiði fyrir afslátt sem nemur helming farmiðans til þeirra sem búa á jaðarsvæðum.

Á málþingi um innanlandsflug sem fram fór á Hótel Natura í gær, flutti Rachel Hunter, svæðisstjóri fyrir Hjaltslandseyjar og Moray-sýslu hjá HIE í Skotlandi, erindi um efnahags- og félagslegan ávinning skosku leiðarinnar. Jóna Árny flutti einnig erindi á málþinginu.

„Bættar samgöngur auka lífsgæði íbúa. Grunnþjónusta, s.s. heilbrigðisþjónusta hefur víða verið skorin niður á landsbyggðinni á sama tíma og hún er efld á höfuðborgarsvæðinu. Því mun skoska leiðin gera landsbyggðarfólki auðveldara að sækja sameiginlega greidda grunnþjónustu sem þeir fá ekki í sínu nærsamfélagi,“ segir Jóna Árný við ViðskiptaMoggann.

Að hennar sögn er gert ráð fyrir að kostnaður áætlunar hér á landi myndi kosta 600-800 milljónir króna á ári.

Reynsla Skota er sú að notkun á innanlandsflugi er næm fyrir hagsveiflum. Í Skotlandi voru lagðir um 1,2 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi í verkefnið í fyrra. Áætlað er að 5,4 milljónir manna hafi búið í Skotlandi árið 2016 en á svæðum áætlunarinnar búa um 100 þúsund manns

Jóna Árný telur að rekstrarskilyrði flugfélaga myndu í kjölfarið batna þegar eftirspurn eftir flugi eykst. „Aukin nýting á flugi ætti að gefa svigrúm til aukinnar tíðni eða lækkunar á verðlagi almennt sem gefur færi á að fá farþega í vélarnar sem ekki falla undir skosku leiðina,“ segir hún.

Hún segir að á málþinginu hafi komið fram að með skosku leiðinni hafi flug verið nýtt í meira mæli þar í landi, framboð aukist, samkeppni einnig og flugmiðaverð lækkað.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK