Arion banki sendi í vikunni kæru til héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi Magnúsar Garðarssonar, fyrrverandi forstjóra og stofnanda kísilvers United Silicon í Helguvík.
Þetta kemur fram í svari Arion banka við fyrirspurn Fréttablaðsins. Þar er tekið fram að bankinn muni ekki svara því á hvaða mögulegu meintu brotum kæran byggist.
Líkt og kom fram á 12. september þá var bankinn að íhuga stöðu sína gagnvart Magnúsi vegna gruns um auðgunarbrot og skjalafals. Lífeyrissjóðirnir sem eiga hlut í fyrirtækinu eru á sömu blaðsíðu.
Magnús er stofnandi og fyrrverandi forstjóri félagsins. Stjórn United Silicon kærði Magnús til héraðssaksóknara í september vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot. Hann er grunaður um að hafa dregið sér rúman hálfan milljarð króna frá stofnun United Silicon, meðal annars með því að senda út tilhæfulausa reikninga sem litu út fyrir að vera uppgreiðsla á verksamningi.
Magnúsi hætti afskiptum af félaginu í mars á þessu ári en allt hefur gengið á afturfótunum í rekstri verksmiðjunnar. Umhverfisstofnun ákvað þann 1. september á þessu ári að stöðva starfsemi verksmiðjunnar sem fyrir vikið er óheimilt að endurræsa ofna nema með skriflegri heimild að loknum fullnægjandi endurbótum. United Silicon er í greiðslustöðvun.