Fara þarf varlega í allar arðgreiðslur

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum.
Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum. mbl.is/Þorsteinn

Í núverandi ástandi í efnahagslífi Íslands er ekki að finna atriði sem talin eru valda umtalsverðri kerfisáhættu. Aftur á móti eru bæði ferðaþjónustan og fasteignamarkaðurinn áhættuþættir sem Seðlabankinn fylgist með og hafa þarf gætur á í framtíðinni til að fyrirbyggja kerfisáhættu. Þetta er meðal þess sem kom fram í nýrri greiningu Seðlabankans á fjármálastöðugleika hér á landi. „Áhættan er lítil,” segir Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum, spurð um heildarmat bankans á áhættunni í dag.

Áfall í ferðaþjónustu væri vel viðráðanlegt

Í ritinu Fjármálastöðugleika var í þetta skiptið brugðið upp sviðsmynd af mögulegri áhættu á fjármálastöðugleika sem gæti stafað af fækkun ferðamanna. Var lagt upp með að fjöldi ferðamanna yrði svipaður og frá í júní 2014 til júní 2015. Samhliða því er gert ráð fyrir versnandi viðskiptakjörum, samdrætti í öðrum útflutningsgreinum eins og sjávarútvegi og áli og samhliða því lækkandi lánshæfismati. Slíkri einkunn gætu fylgt fjármagnsflutningar úr landi og veikara gengi krónu samhliða aukinni verðbólgu.

Í greiningunni er komist að þeirri niðurstöðu að slíkt áfall myndi valda talsverðu tjóni, en að það væri ekki hættulegt kerfislega fyrir fjármálakerfið. Í stað talsverðs hagnaðar bankanna næstu þrjú árin kæmi til um 40-50 milljarða taps sem myndi orsaka lægra eiginfjárhlutfall sem nemur 3,4% og hærri áhættugrunn. Aftur á móti væri staða bankanna í dag mun sterkari en fyrir hrun þegar kröfur um eiginfjárhlutfall voru aðeins 8%. Í dag væru bankarnir með yfir 25% eiginfjárhlutfall og því væri högg sem þessi sviðsmynd setur upp vel viðráðanleg, þrátt fyrir að það myndi ýta undir atvinnuleysi og verðbólgu til skemmri tíma.

Ekki ákjósanlegt að greiða arð hratt út úr bönkunum

Hún segir að í tengslum við kosningar muni bankinn horfa til fjölda þátta tengdum kosningaloforðum flokkanna sem geti haft áhrif á fjármálastöðugleika. Spurð út í hugmyndir um miklar útgreiðslur úr viðskiptabönkunum sem eru í eigu ríkisins og minnka þannig eiginfjárhlutfall þeirra, segir Harpa að það þurfi að fara varlega í allar arðgreiðslur.

„Það þarf að líta fram veginn, hvort áhyggjur séu að byggjast upp og hvernig lausafjár- og eiginfjárstaðan er á hverjum tíma. Svo þarf þetta að gerast í góðri samvinnu og með leyfi FME,“ segir hún og bætir við: „Það er ekki ákjósanlegt að greiða út arð mjög hratt og það þarf að stíga þau skref mjög varlega.“

Útlán til ferðaþjónustu aukist mikið en ekki óeðlileg

Útlán til ferðaþjónustunnar hafa aukist mikið undanfarið ár og eru nú um 17% af útlánum viðskiptabankanna til atvinnustarfsemi. Harpa segir að þar felist áhættuþættir sem snúi meðal annars að því að verið sé að lána í starfsemi sem ekki sé mikil reynsla af hér á landi. „Þá spyr maður sig hvernig sé farið með veð, tryggingar og kjör í samræmi við áhættu í bankakerfinu miðað við lán til atvinnugreina sem áratugareynsla er að lána til.“ Segir hún ljóst að þar felist aðeins meiri áhætta í tengslum við ferðaþjónustuna.

Í kynningu á ritinu tók hún hins vegar fram að enn væri á bilinu 20-30% vöxtur í greininni og því væri ekki óeðlilegt að útlán væru að aukast. Það helgast meðal annars af því að undanfarið hafa fyrirtæki verið að sameinast í greininni og því fylgir oft meiri lántaka. „Þetta er eðlilegt þar sem greinin er að vaxa, en við viljum fylgjast vel með,“ sagði hún.

Íbúðalán aukast en aðrar skuldir heimila lækka

Harpa benti í erindi sínu á að skuldir einkageirans í heild hefðu lækkað umtalsvert undanfarin ár sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Síðastliðið ár hafi hlutfallið hins vegar staðið í stað. Sagði hún að það skýrðist af því að landsframleiðsla væri að aukast mikið, en auk þess lántaka. Reyndar hefði lántaka einkageirans aukist talsvert lengra aftur í tímann þegar leiðrétt væri fyrir styrkingu krónunnar, en þá erum að ræða erlendar lántökur. „Vöxturinn sást ekki vegna styrkingarinnar,“ sagði hún.

Þegar horft er á skuldir heimilanna síðustu ár hafa þær lækkað mikið, en síðustu þrjá ársfjórðunga hafa íbúðaskuldir hins vegar aukist. Á móti hafa aðrar skuldir haldið áfram að lækka. Nemur hækkun íbúðaskulda um 3% á ársgrundvelli. Harpa segir þetta ekki neitt rosalega mikið og þegar horft sé til þessa þáttar eins og sér þá þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur. Hins vegar skipti mestu að horfa til þess hvort lántaka aukist hratt til dæmis samhliða hækkandi fasteignaverði þegar laun fylgi ekki þróuninni, sem reyndar sé farið að gerast í dag. Slíku ástandi þurfi að fylgjast með.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK