Íslenska nýsköpunar- og líftæknifyrirtækið KeyNatura hefur byggt upp þörungaframleiðslu í 800 fermetra húsnæði í Hafnarfirði. Fyrstu vörurnar eru komnar á markað en fyrirtækið framleiðir fæðubótarefni úr þörungaafurðinni astaxanthin.
„Þetta er grunnverksmiðjan og núna tekur við áframhaldandi skölun framleiðslu,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir framkvæmdastjóri. „Ásamt því erum við að hefja markaðssetningu erlendis.“
KeyNatura var eitt þeirra sjö sprotafyrirtækja sem voru valin í Startup Energy Reykjavik viðskiptahraðlinum í byrjun árs 2015. Í janúar 2016 komu Eyrir Sprotar að fyrirtækinu sem fjárfestir og þá var ráðist í uppbyggingu.
„Megnið af verksmiðjunni byggir á íslensku hugviti þar sem stór hluti tæknibúnaðarins er hannaður af starfsmönnum okkar.“
Vörur KeyNatura innihalda náttúrulegu þörungaafurðina astaxanthin sem er karótenefni sem gefur ýmsum vatna- og sjávardýrum lit sinn svo sem rækju, humri og villtum laxi og á uppruna sinn í sjó og vötnum. Fyrirtækið hefur sótt um einkaleyfi sem snúa að vörum þess og einnig á sviði framleiðslu- og ræktunartækni.
„Niðurstöður rannsókna sýna að astaxanthin virkar gegn bólgum, það eflir þol, styrkir hjarta- og æðakerfi, hefur jákvæð áhrif á blóðfitu og ver húð gegn neikvæðum áhrifum sólaljóssins. Þetta er öflugt fæðubótarefni sem byggir verkun sína á andoxunarvirkni og verndar frumur líkamans.“
Fyrirtækin SagaMedica og KeyNatura hafa hafið formlegt samstarf sín á milli en Sjöfn veitir báðum fyrirtækjum forstöðu. Hún segir að samstarfið feli í sér að hægt verði að samnýta margar söluleiðir. Enn fremur segir Sjöfn að fyrirtækið hafi skapað sér mikla sérstöðu á markaðinum.
„Við erum að rækta og framleiða vörurnar á einum stað. Þetta veitir okkur samkeppnisforskot vegna þess að það er einstakt að framleiða í lokuðum kerfum með þessum hætti. Erlendis á framleiðslan sér stað í opnum kerfum sem gerir það að verkum að varan verður aldrei jafn hrein,“ segir Sjöfn og bætir við að kaupendum hafi lýst yfir að þeim finnist mikilvægt að þörungarnir séu ræktaði í íslensku vatni. Það sé önnur sérstaða framleiðslunnar.