Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds hóf nýjan prófunarfasa í október sem stendur yfir í þrjá mánuði. Í leiknum eru laus sæti fyrir 2.500 spilara og fylltust þau á 36 klukkutímum eftir að prófið hófst.
Til samanburðar tók hátt í tvær vikur að fylla síðasta próf þar sem lausar stöður voru 1.500. Þeir spilarar sem ekki eru virkir verða grisjaðir úr leiknum og er reiknað með að um 4.000 spilarar muni að lokum taka þátt í prófinu.
„Við erum með spilara frá 85 löndum, allt frá Japan til Madagaskar,“ segir Stefán Gunnarsson framkvæmdastjóri.
Hann segir að stór ástæða fyrir því að vel hafi gengið að fylla leikinn sé sú að í október hafi 57 erlendir miðlar fjallað um tölvuleikinn, þar á meðal tímariti PCGamer. Nú sé snjóboltaáhrifa farið að gæta.
„Í síðasta prófi voru 250 manns mest samtímis á rásinni en núna hefur fjöldinn farið yfir 700 manns og það má sjá greinileg snjóboltaáhrif þar sem meiri massi spilara dregur sífellt fleiri að leiknum,“ segir Stefán en samfélag Starborne-spilara eru með sérstaka rás á samskiptaforritinu Discord.
Tekjumódel Starborne grundvallast á því að ókeypis er að spila leikinn en spilarar geti keypt sér ýmsa hluti innan hans. „Það lítur út fyrir að um 25% virkra spilara muni kaupa hluti innan leiksins sem þykir mjög gott þar sem leikurinn er enn í þróun.“
Nýlega var greint frá því að forsvarsmenn leikjafyrirtækisins Solid Clouds og tölvunarfræðideildar HR hefðu skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf á sviði gervigreindar í tölvuleikjum.