Kortaþjónustan varð fyrir þungu höggi vegna Monarch

AFP

Færslu­hirðing­ar­fyr­ir­tækið Kortaþjón­ust­an varð fyr­ir al­var­legu höggi þegar breska lággjalda­flug­fé­lagið Mon­arch fór í greiðslu­stöðvun í byrj­un síðasta mánaðar en sam­hliða því hætti flug­fé­lagið starf­semi. Greiðsluþjón­ust­an var eitt átta fyr­ir­tækja sem sáu um færslu­hirðingu fyr­ir fyr­ir­tækið. Í öll­um til­vik­um hafa fyr­ir­tæk­in tekið áhættu með viðskipt­un­um. Felst hún í því að um leið og greiðsla hef­ur borist vegna ferða sem enn eru ófarn­ar, hef­ur hluta greiðslunn­ar verið fleytt áfram og á reikn­inga flug­fé­lags­ins. Þegar ferðir Mon­arch falla nú niður bak­fær­ast hins veg­ar kaup viðskipta­vina þess og færslu­hirðing­ar­fyr­ir­tæk­in sitja uppi með tjón sem nem­ur hinni bak­færðu upp­hæð.

Tjónið er víðtækt

Fram hef­ur komið að greiðslu­stöðvun­in leiddi til þess að 300 þúsund bók­un­um flug­fé­lags­ins var af­lýst og aðgerðin hafði áhrif á allt að 750 þúsund manns. Neydd­ust bresk stjórn­völd til þess að ferja þarlenda viðskipta­vini Mon­arch, sem stadd­ir voru er­lend­is þegar greiðslu­stöðvun­in var samþykkt, heim á kostnað rík­is­ins og er hann tal­inn hlaupa á allt að 60 millj­ón­um punda, jafn­v­irði 8,3 millj­arða króna. Heim­ild­ir Morg­un­blaðsins herma að tjón færslu­hirðing­ar­fyr­ir­tækj­anna átta sem þjón­ustuðu Mon­arch sé á svipuðu róli eða á bil­inu 6-8 millj­arðar. Blaðið hef­ur hins veg­ar ekki fengið staðfest hver hlut­deild Kortaþjón­ust­unn­ar í þeirri upp­hæð er. Víst má telja að hún nemi hið minnsta nokk­ur hundruð millj­ón­um króna.

Þrátt fyr­ir að höggið hafi reynst mikið er ljóst að Kortaþjón­ust­an hef­ur tekið trygg­ing­ar fyr­ir viðskipt­um sín­um við Mon­arch en að hversu miklu leyti þær dekka ætlað tjón hef­ur ekki feng­ist staðfest. Heim­ild­ir Morg­un­blaðsins herma hins veg­ar að for­svars­menn fyr­ir­tæk­is­ins séu bjart­sýn­ir um að greiðslu­stöðvun­in og aðrar aðgerðir sem bresk stjórn­völd hafa gripið til muni leiða til þess að tjón fyr­ir­tæk­is­ins af falli lággjalda­flug­fé­lags­ins verði minna en í fyrstu var talið.

FME gert sér­stak­lega viðvart

Heim­ild­ir Morg­un­blaðsins herma að skömmu eft­ir að vand­ræði Mon­arch komust í há­mæli hafi alþjóðlegu korta­fyr­ir­tæk­in VISA og MasterCard sett sig í sam­band við Fjár­mála­eft­ir­litið ís­lenska vegna stöðu Kortaþjón­ust­unn­ar. Kortaþjón­ust­an vildi ekki tjá sig um málið þegar eft­ir því var leitað.

Sal­an tengd erfiðleik­un­um

Seint á fimmtu­dags­kvöld barst fjöl­miðlum til­kynn­ing um að fjár­fest­ing­ar­bank­inn Kvika hefði ásamt hópi fjár­festa fest kaup á öllu hluta­fé Kortaþjón­ust­unn­ar. Eft­ir viðskipt­in á Kvika 40% í fyr­ir­tæk­inu en aðrir fjár­fest­ar all­ir und­ir 10% hver.

Sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins hafa marg­ir aðilar, einkum er­lend­is, sýnt Kortaþjón­ust­unni mik­inn áhuga á síðustu miss­er­um og háar fjár­hæðir verið nefnd­ar í því sam­bandi. Hins veg­ar hafi eig­end­ur fyr­ir­tæk­is­ins ekki haft áhuga á að selja það. Það hafi hins veg­ar breyst eft­ir að áfallið tengt Mon­arch raun­gerðist í upp­hafi októ­ber­mánaðar.

Mik­ill vöxt­ur á síðustu árum

Vöxt­ur Kortaþjón­ust­unn­ar hef­ur verið mik­ill á síðustu árum. Þannig juk­ust þjón­ustu­tekj­ur fyr­ir­tæk­is­ins á ár­inu 2016 um 143% frá ár­inu á und­an og námu 2,3 millj­örðum króna. Nam þannig hagnaður fé­lags­ins 626 millj­ón­um króna í fyrra en mik­ill meiri­hluti þess hagnaðar var til­kom­inn vegna hlut­deild­ar fyr­ir­tæk­is­ins í sölu­hagnaði sem skapaðist þegar VISA Europe var selt til VISA Inc. Í árs­lok í fyrra námu heild­ar­eign­ir Kortaþjón­ust­unn­ar tæp­um 1,9 millj­örðum króna en skuld­ir henn­ar námu á sama tíma 660 millj­ón­um. Eigið fé nam ríf­lega 1,1 millj­arði. Því var eig­in­fjár­hlut­fall fyr­ir­tæk­is­ins níu mánuðum fyr­ir skakka­föll­in 65%. Eig­end­ur fyr­ir­tæk­is­ins eru Or­tak ehf. og Helga Sig. ehf., sem halda bæði beint á hlut í fé­lag­inu og í gegn­um fé­lagið EC-Cle­ar ehf. Helga Sig. ehf. er í eigu Gunn­ars M. Gunn­ars­son­ar, for­stöðumanns hug­búnaðarsviðs fyr­ir­tæk­is­ins, en Or­tak ehf. er í eigu hjón­anna Andr­eu Krist­ín­ar Jóns­dótt­ur og Jó­hann­es­ar Inga Kol­beins­son­ar, sem er fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka