Félag, sem er að stærstum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða, hefur keypt hlutafé fyrir 1.350 milljónir króna vegna uppbyggingar sólarkísilvers sem Silicor Materials vill reisa hér á landi.
Uppsafnað tap íslenska hlutafélagsins Silicor Materials Holding nam 2,7 milljörðum króna í árslok 2016 en fyrirtækið hefur ekki tryggt sér raforku, lóð eða fjármögnun sem upp á vantar. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu og Vísi í dag.
„Við höfum ekki afskrifað þessa fjárfestingu og það eru góðir möguleikar á borðinu. Einn þeirra, sem við erum að vinna í, er að byggja verksmiðju á Íslandi í annarri útfærslu,“ segir Ómar Örn Tryggvason, stjórnarformaður samlagshlutafélagsins Sunnuvalla sem er í eigu fjögurra lífeyrissjóða, Íslandsbanka og Sjóvár, í samtali við Fréttablaðið.
Sunnuvellir er stærsti einstaki eigandi Silicor Materials Holding með 32 prósenta hlut. Að því félagi koma Lífeyrissjóður verslunarmanna, Birta lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Festa lífeyrissjóður.
Tap Sunnuvalla í fyrra nam 831 milljón króna og þar af voru 715 milljónir vegna eignarinnar í Silicor Materials.
Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í september er Silicor Materials ekki hætt við áform um uppbyggingu kísilverksmiðju á Grundartanga þrátt fyrir að fyrirtækið hafi fallið frá samningum við Faxaflóahafnir um lóð og hafnaraðstöðu.
Michael Russo, forstjóri fyrirtækisins, segir í samtali við Morgunblaðið að ákveðið hafi verið að hægja á undirbúningnum og fjármögnun verkefnisins hefur verið tekin til endurskoðunar.
„Við þurftum að taka eitt eða tvö skref til baka og endurmeta stöðuna en við höfum fullan hug á að halda verkefninu áfram, því hefur ekki verið hætt,“ segir Russo um fjármögnunina en erfiðara reyndist að fjármagna verkefnið en Silicor Materials taldi í fyrstu. Heildarfjárfesting United Silicor var metin á um 900 milljónir dollara eða 95 milljarða króna og átti að skapa 450 störf.