Neikvæð áhrif vegna United Silicon

Mynd/Arion banki

Afkoma Arion banka á þriðja ársfjórðungi ársins 2017 var neikvæð um 100 milljónir króna samanborið við 7,5 milljarða króna hagnað á sama tímabili 2017. Arðsemi eigin fjár á fjórðungnum var neikvæð sem nemur 0,2% en var jákvæð sem nam 14,4% á sama tímabili 2016.

Hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 nam 10,4 milljörðum króna samanborið við 17,3 milljarða króna á sama tímabili 2016. Arðsemi eigin fjár var 6,3% en var 11,2% á sama tímabili árið 2016, að kemur fram í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í kvöld.

Neikvæð afkoma á ársfjórðungnum skýrist af niðurfærslum á lánum, kröfum og öðrum eignum sem tengjast United Silicon og nema alls 3,7 milljörðum króna á fjórðungnum og 4,8 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins. Afkoma þriðja ársfjórðungs hefði numið um 2,6 milljörðum króna ef ekki hefði komið til þessa.

Fljótlega kom óreiða í ljós

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir afkomuna í takt við væntingar en verulegir einskiptisliðir komi bæði til hækkunar og lækkunar. Grunnreksturinn sé stöðugur og vaxta- og þóknanatekjur nálgist væntingar.

„Fjárhagsstaða bankans er áfram sterk og eiginfjárhlutfall er 27,1%. Afkoman markast hins vegar talsvert af neikvæðum áhrifum tengdum lánveitingum til United Silicon og hlutabréfaeign í félaginu. Arion banki hefur fært niður lán til félagsins að hluta og hlutabréfaeign sína að fullu. Það er um ár síðan verksmiðja United Silicon var gangsett og fljótlega kom í ljós að óreiða var á starfsemi félagsins.

Nú liggur jafnframt fyrir að verksmiðjan var ekki fullkláruð þegar hún var gangsett. Arion banki hefur því þurft að koma að starfsemi félagsins í æ ríkari mæli og er í dag stærsti hluthafi þess. Neikvæð áhrif vegna United Silicon nema ríflega 2% af eigin fé bankans og niðurfærsla lána nemur innan við 0,4% af lánabók bankans. Útistandandi skuldbinding nemur um 5,4 milljörðum króna sem er um 0,5% af efnahag bankans.“

Þarf að draga lærdóm

Höskuldur segir áhættutöku með viðskiptavinum vera kjarnann í starfsemi fjármálafyrirtækja og sem betur fer gangi flest verkefni vel.

„Við höfum skoðað vel aðdragandann að þátttöku bankans í uppbyggingu kísilverksmiðju United Silicon. Niðurstaðan er sú að greiningarvinnan sem unnin var og lá til grundvallar ákvörðunar um að lána í verkefnið hafi í öllum aðalatriðum verið góð. Þar var stuðst við áætlanir félagsins, en að gerð þeirra komu bæði innlendir og reynslumiklir erlendir aðilar.

Einnig var stuðst við álit og úttektir utanaðkomandi sérfræðinga. Málið átti sér langan aðdraganda og fyrir lágu öll leyfi og samningar um uppbyggingu verksmiðjunnar, orkukaup, helstu aðföng og sölu afurða. Engu að síður er ljóst að draga þarf lærdóm af því hvernig til hefur tekist og það munum við gera. Áfram verður unnið að því að koma starfsemi verksmiðjunnar í gott horf í sátt við samfélagið,“ segir Höskuldur.

Heildareignir bankans aukast

Heildareignir Arion banka námu 1.144,9 milljörðum króna í lok september samanborið við 1.036,0 milljarða króna í árslok 2016 og eigið fé hluthafa bankans nam 221,5 milljarði króna í lok september, samanborið við 211,2 milljarða króna í árslok 2016. Efnahagur bankans er sterkur og hefur mikil áhersla verið lögð á að tryggja lausafjárstöðu í tengslum við afnám fjármagnshafta og afborganna skuldabréfa sem eru á gjalddaga snemma árs 2018.

Eiginfjárhlutfall bankans var 27,1% í lok september og er óbreytt frá árslokum 2016. Hlutfall eiginfjárþáttar 1 hækkaði og nam 26,6% samanborið við 26,5% í árslok 2016.

Lánshæfismatsfyrirtækið S&P hækkaði lánshæfismat bankans nýverið í BBB+.

„Þetta er í takt við þá þróun sem hefur átt sér stað innan bankans og almennt hér á landi, þar sem bæði bankinn og íslenskt efnahagslíf hafa haldið áfram að styrkjast. Arion banki hefur verið virkur þátttakandi á alþjóðlegum lánamörkuðum og hækkun lánshæfismats stækkar enn frekar þann hóp fjárfesta sem horfir til bankans, sem aftur stuðlar að lægri fjármögnunarkostnaði bankans til framtíðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK