Stjórn Mannvits hefur ráðið Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur sem nýjan forstjóra félagsins, en fyrri forstjóri, Sigurhjörtur Sigfússon, lét af störfum í upphafi þessa mánaðar.
Sigrún Ragna var forstjóri VÍS frá 2011 til 2016. Þá var hún framkvæmdastjóri fjármála og reksturs hjá Íslandsbanka frá 2008 til 2011 og starfaði áður í um 20 ár hjá Deloitte og fyrirrennurum þess, þar sem hún var einn eigenda og stjórnarformaður.
„Ég hlakka til að taka við sem forstjóri þessa öfluga og alþjóðlega þekkingarfyrirtækis og fá tækifæri til að starfa í hópi frábærra starfsmanna við áframhaldandi uppbyggingu félagsins á sviði tæknilegrar þróunar og nýsköpuna,“ er haft eftir Sigrúnu í fréttatilkynningu frá Mannviti.
Sigrún Ragna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, löggiltur endurskoðandi auk þess sem hún lauk MBA-námi frá Háskólanum í Reykjavík 2007. Sigrún Ragna hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og samtaka, m.a. Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fjármálafyrirtækja.
„Við erum afar ánægð að fá Sigrúnu Rögnu til liðs við Mannvit til að leiða starfsemi félagsins hér heima og erlendis. Sigrún Ragna býr að víðtækri stjórnunar- og leiðtogareynslu og við hlökkum til samstarfs við hana,“ segir Sigurður Sigurjónsson, stjórnarformaður Mannvits, í tilkynningu til fjölmiðla.
Gert er ráð fyrir að Sigrún Ragna hefji störf hjá Mannviti 1. desember næstkomandi, en Mannvit er alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki sem veitir margvíslega tæknilega þjónustu á sviði orku, iðnaðar og mannvirkja og er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði tæknilegrar ráðgjafar og nýsköpunar. Fyrirtækið er ásamt dóttur- og hlutdeildarfélögum með starfsemi í Ungverjalandi, Þýskalandi, Noregi og Grænlandi auk Íslands.