Þúsund „hvalir“ eiga 40% af bitcoin

Margir furða sig á ótrúlegum verðhækkunum rafmyntarinnar að undanförnu.
Margir furða sig á ótrúlegum verðhækkunum rafmyntarinnar að undanförnu. AFP

Á rúmum tveimur mánuðum hefur rafmyntin Bitcoin þrefaldast í verði og kostar nú eitt eintak um 16 þúsund dali. Talið er að um þúsund manns eigi um 40% af heildarforðanum samkvæmt umfjöllun Bloomberg Businessweek

Hinn 12. nóvember voru 25 þúsund bitcoin færð inn á markaðssvæði fyrir rafmyntir. Fréttir þess efnis fóru sem eldur um sinu um spjallborð þar sem rætt var um hvort eigandinn ætlaði að selja allt á einu bretti. 

Þeir sem eiga mikið magn af bitcoin eru kallaðir „hvalir“ og eru þeir farnir að valda fjárfestum síauknum áhyggjum. Með því að selja aðeins brot af forðanum geta þeir haft veruleg áhrif á verðmyndun rafmyntarinnar. 

Talið er að um 40% af bitcoin séu í eigu um það bil þúsund manns og eftir ótrúlegar hækkanir á síðustu dögum og vikum gæti þessi hópur viljað selja um helming forða síns að sögn Aaron Brown, fyrrverandi forstöðumanns markaðsgreiningar hjá AQR Capital Management.  

Þessir „hvalir“ geta jafnvel samhæft aðgerðir sínar til þess að hafa áhrif á markaðinn enda hafa margir þeirra þekkst um árabil, allt frá því að bitcoin ruddi sér fyrst til rúms. 

„Ég held að þetta séu nokkur hundruð einstaklingar,“ segir Kyle Samani hjá Multicoin Capital. „Þeir geta líklega hringt hver í annan og hafa líklega gert það.“ Þar sem bitcoin er ekki skilgreint sem fjármálagerningur af yfirvöldum eru engin viðurlög við því að hópur manns komi sér saman um að þrýsta verðinu upp í hagnaðarskyni. 

Bitcoin skárra en aðrar rafmyntir

Venjulegir fjárfestar eru enn berskjaldaðri þegar kemur að smærri rafmyntum. Af þeim rafmyntum sem ganga kaupum og sölum á markaði er eignarhald bitcoin dreifðast að sögn Spencer Bogart hjá Blockchain Capital. 

Alex Sunnarborg, eigandi vogunarsjóðs sem fjárfestir í rafmyntum, segir að stærstu 100 eigendur bitcoin eigi um 17,3% af heildarmagni. Í samanburði eiga stærstu 100 eigendur ether, keppinautar bitcoin, um 40% af heildarmagni. Hlutfallið getur farið upp í 90% hjá smærri rafmyntum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka