Hópbílar, sem eru í eigu Horns III sem er sjóður á vegum Landsbréfa, hafa keypt rúmlega helmingshlut í rútufyrirtækinu Reykjavík Sightseeing. Kaupin voru gerð með hlutafjáraukningu. Stofnendur félagsins og stjórnendur eiga tæplega helmings hlut í félaginu á móti Hópbílum.
„Kaupin eru liður í aukinni samþættingu í ferðaþjónustu, sem er nauðsynleg eftir að ferðamenn fóru að halda að sér höndum í meira mæli í kjölfar sterkari krónu,“ segir Guðjón Ármann Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hópbíla, í samtali við ViðskiptaMoggann. „Það er töluverð samlegð í samstarfi fyrirtækjanna, en Reykjavík Sightseeing er í dagsferðum sem Hópbílar hafa hingað til ekki verið mikið í.“
Reykjavík Sightseeing, sem hóf starfsemi sumarið 2016, var stofnað af eigendum bílaleigunnar Hertz , þeirra á meðal eru Sigfús Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Heklu, og sonur hans Sigfús Bjarni, og Torfa G. Yngvasyni, sem komið hefur að rekstri fjölda fyrirtækja í ferðaþjónustu. Fyrirtækið rekur 18 hópferðabíla.