Kreppir að hjá Bílanausti

mbl.is/Jim Smart

Velta bílavöruverslana Bílanausts dróst saman um tæpan fjórðung á árunum 2013 og 2016. Samdrátturinn nam 6% frá 2015 til 2016 en á sama tímabili juku keppinautarnir umsvif sín. 

Tekjur félagsins árið 2016 námu 1.719 milljónum, 1.807 milljónum árið áður og 2.236 milljónum árið 2013. Tap síðasta árs var 85 milljónir en uppsafnað tap frá 2013 skagar hátt í 200 milljónir. 

Vörubirgðir Bílanausts hafa látið á sjá af samdrættinum en virði þeirra minnkaði úr 598 milljónum árið 2013 niður í 443 milljónir á síðasta ári. 

Auk Bílanausts eru tvö stór fyrirtæki á bílavörumarkaðinum; Stilling og AB varahlutir. Til samanburðar voru tekjur Stillingar 1.245 milljónir árið 2016 og jukust þær um 13% frá fyrra ári. Hagnaður Stillingar var 30 milljónir bæði árin. Á sama tímabili jukust tekjur AB varahluta 7% en þær námu 815 milljónum í fyrra. Hagnaður AB varahluta var 139 milljónir í fyrra og 167 milljónir árið 2015. 

Árið 2007 rann Bílanaust ásamt Essó inn í N1 en vorið 2013 var það endurvakið í sinni upprunalegu mynd og selt Lár­usi Blön­dal Sig­urðssyni og meðfjár­fest­um. 

„Vafi á rekstrarhæfi“

Í ársreikningi Bílanausts frá 2016 segir í áritun óháðs endurskoðanda að félagið uppfylli ekki ákvæði lánasamninga og lánin hafi því verið flokkuð meðal skammtímaskulda. Stjórnendur séu í viðræðum við viðskiptabanka félagsins og verði lánin gjaldfelld eða semjist ekki um endurfjármögnun þeirra ríki óvissa um áframhaldandi rekstrarhæfi félagsins.

Þá er vakin athygli á að þrátt fyrir að lánin verði ekki gjaldfelld og því flokkuð á ný sem langtímaskuldir sé hreint veltufé félagsins neikvætt um 207 milljónir króna og hafi versnað um 179 milljónir frá upphafi árs.

„Takist félaginu ekki að snúa þróuninni við leiki vafi á rekstrarhæfi þess,“ segir í árituninni. 

Halldór Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Bílanausts, segir í samtali við mbl.is að félagið hafi lokið viðræðum við viðskiptabankann. Hann rekur tap félagsins til þess að afskrifa hafi þurft  óhemjumikinn lager sem fylgdi með sölu Bílanausts úr N1. 

„Þetta er síðasta árið þar sem verið er að hreinsa þennan klafa út. Stór hluti af þessum lager samanstóð af varahlutum í gamla bíla sem ekki stóðust tímans tönn.“

Minnihlutaeigendur keyptir út

Í tengslum við söluna var gerður samningur um að N1 sæi um vöruhúsaþjónustu fyrir Bílanaust en samkvæmt heimildum mbl.is hefur þetta fyrirkomulag gert Bílanaust erfitt fyrir í samkeppni við Stillingu og AB varahluti. Hins vegar er N1 stór viðskiptavinur Bílanausts. 

Aðspurður segir Halldór að kostir og gallar séu við flesta samninga. Þá nefnir hann að vændum séu breytingar á eignarhaldi í félaginu sem feli í sér að meirihlutaeigendur kaupi minnihlutaeigendur út. 

Erlenda félagið Coldrock Investments limited á 43,55% í Bílanaust samkvæmt upplýsingum úr ársreikningaskrá. Guðný Edda, Gunnar Þór, Eggert Árni og Halldór Páll Gíslabörn eiga 9,11% hver. Lárus Blöndal Sigurðsson fer með 7,79% hlut og Heba Brandsdóttir 6,79% hlut en auk þeirra eru fjórir aðrir eigendur með minni hlutdeild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK