Smári McCarthy, þingmaður Pírata, hefur lagt fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra sem snýr meðal annars að því hvort að löglegt sé að búa til Monopoly-peninga, mjólkurmiða og flugpunkta.
Í fyrirspurninni er vísað til 154. greinar hegningarlaga sem er svohljóðandi: „Sektum eða [fangelsi] allt að 3 mánuðum skal sá sæta, sem án heimildar í lögum býr til, flytur inn eða lætur úti handhafabréf, sem notuð kunna að verða til þess að ganga sem gjaldmiðill manna á milli, hvort heldur almennt eða innan sérstaks flokks manna, eða vænta má, að notuð verði á þann hátt. Ákvæði þessarar greinar taka ekki til erlendra peningaseðla.“
Spyr Smári hvernig hugtökin handhafabréf, erlendur peningaseðill, gjaldmiðill, búa til, flytja inn og að láta úti séu skilgreind í þessu samhengi.
Enn fremur spyr hann hvort að spilapeningar úr Monopoly-spilinu, mjólkurmiðar gefnir út af skóla, ávísun á erlenda bankainnstæðu, útprentun á tölvupósti með loforði um greiðslu í framtíðinni, flugpunktar hjá flugfélagi sem heimilar millifærslur milli viðskiptavina og inneignarnóta frá verslun sem er stíluð á handhafa falli undir greinina.
Smári segir í samtali við mbl.is að ýmislegt í hegningarlögum hafi verið skrifað fyrir annan tíma en við búum við í dag. „Þessi kafli fjallar um peningafals og er búinn til á tíma þegar alþjóðleg viðskipti voru minni í sniðum og rafræn viðskipti voru ekki til.“
Þá segir Smári að í ljósi framþróunar í rafrænum viðskiptum sé nauðsynlegt að fá skilning á því hvernig greinin sé túlkuð, hvað orðin þýði og hvernig ráðuneytið beiti þessu.
„Þessi atriði eru á gráu svæða samkvæmt orðalagi greinarinnar og þess vegna skiptir túlkunin svona miklu máli. Ég á ekki von á því að neitt af þessum atriðum verði túlkað á refsiverðan hátt og ég býst ekki við því að einhver verði ákærður fyrir að vera handhafi Monopoly-peninga en út frá þessari spurningu um þróun fjármálagerninga er þetta forvitnilegt.“