Subway dæmt til að greiða þrotabúi 15 milljónir

Stjarnan rekur yfir 20 Subway-veitingastaði á landinu.
Stjarnan rekur yfir 20 Subway-veitingastaði á landinu. mbl.is/Arnaldur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu þrotabús EK1923 um riftun á framsali á kröfu félagsins á hendur íslenska ríkinu til Stjörnunnar, sem rekur Subway, þar sem talið var að framsalið hefði falið í sér greiðslu félagsins til Stjörnunnar með óvenjulegum greiðslueyri og að greiðslan hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl.

Þá var Stjörnunni gert að greiða þrotabúinu þá fjárhæð sem íslenska ríkið hafði greitt félaginu á grundvelli hinnar framseldu kröfu, tæpar 15 milljónir króna.

Höfðaði mál vegna ofgreiðslu gjalda til ríkissjóðs

Þrotabúið EK1923 höfðað málið á hendur Stjörnunni og krafðist þess að rift yrði með dómi framsali þrotabúsins til Stjörnunnar frá 27. janúar 2016, þar sem framseld var til Stjörnunnar endurkrafa þrotabúsins á hendur íslenska ríkinu að fjárhæð 24.628.250 krónur, vegna ofgreiðslu gjalda til ríkissjóðs í tengslum við úthlutun á tollkvótum með útboði á árunum 2014 og 2015.

Í öðru lagi krafðist þrotabúið þess að Stjörnunni yrði gert  greiða þrotabúinu 24.628.250 krónur en til vara 14.670.838 krónur.

Stjarnan krafðist aðallega sýknu af öllum kröfum og að þrotabúið greiddi félaginu málskostnað að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi. Til vara krafðist félagið þess að dómkröfurnar yrðu lækkaðar verulega og að málskostnaður yrði látinn niður falla.

EK1923 tekið til gjaldþrotaskipta í september2016

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dagsettum 7. september 2016, var einkahlutafélagið EK1923 tekið til gjaldþrotaskipta. EK1923 ehf. var lengst af þekkt sem heildverslun Eggerts Kristjánssonar hf. og var meginstarfsemi þess innflutningur á matvöru og hreinlætisvörum. Árið 2016 var nafni félagsins breytt í EK1923 ehf., skömmu áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Í nóvember 2013 keypti Leiti eignarhaldsfélag ehf., sem er í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar, 70% eignarhlut í EK1923 ehf. Hið fyrrnefnda félag eignaðist síðan hið síðarnefnda alfarið árið 2015. Í ársbyrjun 2014 keypti EK1923 ehf. lager í eigu Sólstjörnunnar ehf. en það félag hafði annast innkaup, lagerhald og dreifingu fyrir stefnda, Stjörnuna ehf. Stjarnan hefur rekstur Subway matsölukeðjunnar með höndum og er félagið einnig í eigu fyrrnefnds Skúla Gunnars Sigfússonar.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Í kjölfar kaupa EK1923 á lager Sólstjörnunnar komst á viðvarandi viðskiptasamband á milli EK1923 og Stjörnunnar og gerðu aðilar með sér drög að þjónustusamningi haustið 2015. Viðskipti aðila fóru fram á þann hátt að EK1923 annaðist innflutning, lagerhald og dreifingu fyrir Stjöruna, sem Sólstjarnan hafði áður sinnt. Aðilar sömdu um ákveðin kjör í viðskiptum sínum og skyldi Stjarnan greiða EK1923 svokallað heildarinnkaupsverð sem tók til flutningskostnaðar, tolla, geymslukostnaðar og tollkvóta. Samkvæmt drögum að þjónustusamningnum, sem þó voru aldrei formlega undirrituð, skyldi Stjarnan greiða EK1923 ehf. 10% álag á þær vörur sem það félag keypti inn og seldi áfram til Stjörnunnar og síðar meir 12,5% álag. Ekki stendur ágreiningur um þetta atriði í málinu.

Hélt fram að framsal kröfu hefði verið gjafagerningur

EK1923 byggði riftunarkröfu sína á því að umrætt framsal kröfu á hendur íslenska ríkinu frá EK1923 ehf., öðru nafni Eggert Kristjánsson ehf., til Stjörnunnar frá 27. janúar 2016 hafi verið gjafagerningur til hagsbóta fyrir Stjörnuna í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá byggðist krafa þrotabúsins jafnramt á því að með framsalinu hefði átt sér stað uppgreiðsla á kröfu Stjörnunnar á hendur EK1923, sem væri riftanleg á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti, enda hefði hún verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða að greidd hefði verið fjárhæð sem hefði skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Þrotabúið byggði á því að greiðslan gæti ekki talist venjuleg eftir atvikum. Í þriðja lagi byggði þrotabúið á því að framsalið hefði falið í sér ráðstöfun, sem hefði verið Stjörnunni til hagsbóta á ótilhlýðilegan hátt á kostnað kröfuhafa þrotabúsins, sbr. 141. gr. gjaldþrotalaga. Þá byggði þrotatbúið á því að EK1923 ehf. hafi í raun verið ógjaldfært þegar greiðslurnar fóru fram.

Héraðsdómur Reykjavíkur segir óumdeilt að EK1923 hafi eignast kröfu á hendur ríkinu í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands í málum réttarins nr. 317/2015, 3018/2015 og 319/2015 þar sem innheimta gjalda vegna úthlutunar tollkvóta var talin fela í sér ólögmæta skattheimtu.

Í málinu liggur frammi samkomulag Eggerts Kristjánssonar ehf. og Stjörnunnar sem undirritað var sama dag og framangreint kröfuframsal sömu aðila. Í samkomulaginu er lýst viðskiptum aðila og niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í tilgreindum málum og að ríkinu hafi verið gert að endurgreiða að fullu þeim aðilum, sem hafi tekið þátt í útboðum vegna tollkvóta, þá greiðslu sem þeir hafi innt af hendi.

Ekki gjafagerningur í skilningi laga

Jafnframt segir: „Má því gera ráð fyrir að EK eigi kröfu um endurgreiðslu á framangreindu gjaldi frá ríkinu. Með samkomulagi þessu er það staðfest að Stjarnan eigi rétt til umræddrar endurgreiðslu frá ríkinu, þar sem álögð en ólögmæt gjöld hafa ávallt verið lögð, af hálfu EK, á innkaupsverð til Stjörnunnar. Nemur krafa Stjörnunnar á hendur EK vegna þessa sömu fjárhæð og sem nemur endurkröfu EK á hendur íslenska ríkinu. Krafa Stjörnunnar samkvæmt framangreindu er gerð upp með framsali kröfu EK á hendur ríkinu, undirrituðu í dag.“ Í skjalinu er síðan tilgreindar þrjár greiðslur samtals að fjárhæð 24.628.250 krónur.

Héraðsdómur segir, að þegar litið sé efnis annars vegar framsalsins og hins vegar samnings aðila í tengslum við það verði ekki fallist á það með þrotabúinu að framsal á kröfu EK1923 til Stjörnunnar hafi verið gjafagerningur í skilningi laga. Þykir hvorki breyta þeirri niðurstöðu þótt krafa Stjörnunnar hafi ekki verið skráð sem slík í bókhaldi hans né hafi hún verið skráð sem skuld í bókhaldi EK1923.

Héraðsdómur segir ennfremur, að ekki sé hald í þeim skýringum að umrætt framsal kröfu EK1923 hafi verið gert til hagræðisauka fyrir báða aðila.

Fallist á að framsalið hafi falið í sér greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri

Aftur á móti er fallist á það með þrotabúinu að framsal á kröfu EK1923 á hendur íslenska ríkinu til Stjörnunnar hafi, á þeim tíma sem framsalið fór fram, falið í sér greiðslu félagsins til Stjörnunnar með óvenjulegum greiðslueyri og að greiðslan hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum.

Héraðsdómur segir að sjónarmið Stjörnunnar um að félagið hafi átt kröfu á hendur EK1923 á grundvelli reglna um endurheimtu ofgreidds fjár eða sprangkröfu á hendur íslenska ríkinu þyki ekki fá breytt þeirri niðurstöðu. Framsalið hafi því verið riftanleg ráðstöfun og verði að líta svo á að Stjarnan hafi haft hag af henni. Var því fallist á riftunarkröfu þrotabúsins. Ekki var tekin frekari afstaða til málsástæðna aðila.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK