Yfirskattanefnd hefur fellt niður tekjufærslu á söluhagnaði hlutabréfa kaupsýslumanns að fjárhæð 739.086.497 krónur. Kröfu kaupsýslumannsins varðandi dráttarvexti er vísað frá yfirskattanefnd en að öðru leyti er kröfum hans hafnað. Þetta kemur fram á vef yfirskattanefndar en samkvæmt Fréttablaðinu í dag er umræddur kaupsýslumaður og kærandi Karl Wernersson.
Þar kemur fram að skattframtalning Karls Wernerssonar vegna aflandsfélags síns Dialog Global Investment Ltd. (DGI), sem skráð var á Bresku-Jómfrúareyjum, hafi ekki verið í samræmi við lög. Úrskurðurinn féll 20. desember og var birtur á vef yfirskattanefndar í síðustu viku.
Í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum hans fyrir árin 2005-2009 endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld Karls vegna tekjuáranna 2006, 2007 og 2008.
Í úrskurði yfirskattanefndar segir:
Í málinu var m.a. deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna í almennu skattþrepi tekjuskatts greiðslur frá X Ltd., sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, sem kærandi hafði tilfært sem arð frá félaginu í skattframtölum sínum.
Í ljósi þess sem fyrir lá um starfsemi X Ltd. á því tímabili sem málið varðaði, og þar sem kærandi hafði ekki lagt fram nein samtímagögn, svo sem afrit stjórnarsamþykkta, til stuðnings kröfu sinni, var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að virða bæri greiðslur X Ltd. til hans í heild eða að hluta sem arðgreiðslur. Þá var kærandi sömuleiðis ekki talinn hafa sýnt fram á með gögnum að vaxtatekjur vegna lánveitingar hans til Y ehf. á árinu 2006 tilheyrðu í reynd X Ltd. Var því ekki hróflað við tekjufærslu ríkisskattstjóra á vaxtatekjunum í skattframtali kæranda árið 2007.
Á hinn bóginn var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að færa kæranda til tekna söluhagnað vegna sölu Z Ltd., félags í eigu kæranda sem skráð var á Bresku Jómfrúreyjum, á hlutabréfum í E hf. og G hf. á árinu 2006 felld niður. Kom fram að gögn málsins, þar með talið tilkynningar Kauphallar Íslands, bentu eindregið til þess að Z Ltd. hefði verið kaupandi hlutanna í öndverðu. Var ríkisskattstjóri ekki talinn hafa sýnt fram á það að skattleggja bæri söluhagnað vegna sölu hlutabréfanna hjá kæranda persónulega. Kröfu kæranda um niðurfellingu 25% álags var hafnað og kröfu hans um útreikning dráttarvaxta var vísað frá yfirskattanefnd.