Launavísitala Hagstofunnar hefur ofmetið launabreytingar hjá fólki í þjónustu-, sölu- og afgreiðslustörfum um 38% á árunum 2005-2016. Þetta benda Samtök atvinnulífsins á og vísa til samanburðar á launavísitölu og þeirrar hækkunar sem orðið hefur á reglulegum launum fullvinnandi í fyrrnefndum geirum.
„Launavísitala Hagstofunnar hefur æ ofan í æ ofmetið þær launabreytingar sem orðið hafa á íslenskum vinnumarkaði síðustu áratugina. Hún hefur að jafnaði hækkað rúmlega 0,7% umfram hækkun meðallauna á árabilinu 2005-2016,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.
„Þetta er verulega alvarlegt mál því vinnumarkaðurinn allur miðar forsendur þeirra kröfugerða sem uppi eru þegar kjarasamningar losna við þessa vísitölu. Þegar hún gefur ranga mynd af launaþróuninni er fólk í sífellu að miða við hluti sem varpa ekki réttu ljósi á raunverulega launaþróun í landinu.“