Yfirskrift góðgerðarsamkomu sem haldin var í London í síðustu viku var að safna fé fyrir barnaspítala í borginni en aðeins körlum er boðið til samkomunnar sem gestum. Konurnar sem voru í salnum fengu greitt fyrir að vera þar og gert að klæðast á ákveðinn hátt. Kynferðisleg áreitni setti svip sinn á samkomuna.
Blaðamenn Financial Times voru á staðnum og lýsa því í viðamikilli úttekt á vef blaðsins. En þarna voru helstu frammámenn í bresku viðskiptalífi, 360 talsins, allir klæddir í svört jakkaföt með bindi.
Veislustjórinn, Jonny Gould, íþróttafréttamaður hjá Sky, bauð gesti á góðgerðarsamkomuna velkomna í veislusal Dorchester hótelsins í London en þar var safnað peningum fyrir Great Ormond Street barnasjúkrahúsið. Á uppboði var hægt að kaupa hádegisverð með utanríkisráðherra, Boris Johnson, og síðdegis tedrykkju með seðlabankastjóra, Mark Carney.
Aðeins karlar mega taka þátt og þeir voru 360 talsins sem þáðu boðið. Menn sem eru áberandi í bresku viðskiptalífi, stjórnmálum, fjármálum og skemmtanaiðnaðinum. Konurnar, 130 talsins, fengu greitt fyrir að skemmta körlunum.
Þeim er gert að mæta í svörtum efnislitlum kjólum, viðeigandi nærfatnaði og á háum hælum. Í partýi eftir uppboðið lentu margar þeirra í að það var káfað á þeim, þær beittar kynferðislegri áreitni og þeim boðið upp á kynlíf. Sumar þeirra eru háskólanemar sem voru að ná sér í aukapening.
Samkvæmt frétt FT er kvöldskemmtunin einn af hápunktunum í samkvæmislífi höfuðborgar Bretlands og hefur verið það í 33 ár. Yfirleitt hefur ekki farið hátt hvað fer þar fram sem er kannski óvanalegt miðað við tilgang samkomunnar og stærð.
Tveir af blaðamönnum FT voru sendir á vettvang sem starfsstúlkur í veislunni. Á þeim sex tímum sem veislan stóð yfir urðu þær vitni að káfi, óviðeigandi ummælum og ítrekuðum beiðnum frá gestum að stúlkurnar kæmu upp á herbergi með veislugestum. Stúlkurnar urðu ítrekað fyrir því að karlar tróðu höndunum undir pils þeirra og jafnvel einn þeirra beraði kynfæri sín fyrir framan eina þeirra í veislunni.
Yfir tvær milljónir punda, 288 milljónir króna, söfnuðust þetta kvöld en til þess að lesa frétt Financial Times í heild þarf áskrift.
Athugasemd frá blaðamanni: Þar sem einhverjir lesendur voru ósáttir við fyrri fyrirsögn fréttarinnar Þuklað í þágu góðgerðar og töldu hana móðgandi fyrir konur án þess að það hafi verið ætlun blaðamanns var fyrirsögninni breytt í Þar sem konur eru niðurlægðar - góðgerðarsamkoma sem aðeins er ætluð körlum