Tvær af þremur breiðþotum WOW air af gerðinni Airbus A330 eru tímabundið ótiltækar. Þær vélar sem fylla í skarðið geta þurft að lenda á leiðinni til Los Angeles eða San Francisco til þess að taka eldsneyti.
Þetta staðfestir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, í samtali við mbl.is. Hún segir að í flota WOW air séu þrjár breiðþotur af gerðinni Airbus A330. Ein af vélunum sé í reglubundinni skoðun erlendis og önnur í viðgerð á Keflavíkurflugvelli eftir óhapp sem átti sér stað á flughlaðinu.
„Tímabundið notar WOW air Airbus A321neo-vél til að fylla í skarðið og í ljósi vegalengdar getur þurft að stoppa á leiðinni til Los Angeles eða San Francisco ef um fulla vél af farþegum er að ræða.“
Samkvæmt heimildum mbl.is koma Edmonton í Alberta-fylki í Kanada og Spokane í Washington-ríki í Bandaríkjunum til greina sem áfyllingarstaðir á leiðinni til San Francisco og Los Angeles.
Um daginn flaug WOW air eitt lengsta flug sem sem flogið hefur verið á gerðinni Airbus A321neo til Los Angeles en þessi gerð véla er sú nýjasta frá framleiðandanum.