Icelandic Trademark Holding, eigandi vörumerkjanna Icelandic og Icelandic Seafood og Margildi ehf., hefur skrifað undir leyfissamning um markaðssetningu og sölu á fiskolíum undir vörumerkinu Icelandic Fish Oil í Bandaríkjunum. Áætlað er að sala og dreifing hefjist síðar á árinu.
„Vaxandi áhugi á neytendamarkaði fyrir Íslandi og íslenskum vörum hefur fært okkur stóraukin sóknarfæri og slíkur áhugi hjálpar fyrirtækjum að vera með vörumerki og umbúðir sem vísa sterkt í íslenskan uppruna.“ Þetta er haft eftir Herdísi Fjeldsted, stjórnarformanni Icelandic Trademark Holding, í tilkynningu.
„Með aukinni vitundarvakningu neytenda undanfarin ár á mikilvægi þess að auka við heilbrigði og neyta hágæðalýsis (Omega-3) sem jafnframt uppfylla þau skilyrði að vera framleidd úr hreinum og sjálfbærum hráefnum sjáum við mikil tækifæri í sölu og markaðssetningu okkar hágæðaafurða undir merkjum Icelandic,“ segir Snorri Hreggviðsson, framkvæmdastjóri Margildis, af sama tilefni.
Margildi sérhæfir sig í framleiðslu lýsis (Omega-3 fitusýra) úr íslenskum uppsjávarfiski. Icelandic Trademark Holding (ITH) er eigandi og þjónustuaðili vörumerkjanna Icelandic og Icelandic Seafood sem einblína á vörur með íslenskan uppruna og heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna og þjónustu gagnvart leyfishöfum og íslenskum framleiðendum í Bandaríkjunum, Suður-Evrópu og á Íslandi.