Fallið heldur áfram

Nikkei-hlutabréfavísitalan fylgdi í kjölfar Dow Jones í morgun með mikilli lækkun en sú fyrrnefnda lækkaði um 4,73%. Fyrr um daginn hafði lækkunin numið allt að 7%. Þetta er mesta verðlækkun hlutabréfa í Japan frá því daginn sem Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna, í nóvember 2016.

Í gærkvöldi lækkaði Dow Jones um tæplega 1.600 stig um tíma sem er mesta einstaka verðlækkun vísitölunnar í sögulegu samhengi en Dow Jones-vísistalan rétti heldur úr kútnum þegar leið á kvöldið og nam lækkunin 4,6% við lokun markaða. Samt sem áður er þetta mesta lækkun vísitölunnar frá árinu 2008 þegar fjármálakreppan var í algleymi.

Lækkunin í gær hófst í raun strax á föstudag og í lok dags í gær hafði öll hækkun ársins þurrkast út. Sama á við um S&P-vísitöluna en innan hennar eru 500 stærstu fyrirtæki sem eru skráð á markað í Bandaríkjunum.

Bætt við klukkan 8:15 - helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa lækkað um meira en 3% frá því viðskipti hófust í morgun. Þar á meðal DAX-vísitalan í Frankfurt en lækkun hennar nemur 3,6%. 

Í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um rúm 5% í dag.

Miklar lækkanir á mörkuðum er ekkert nýtt af nálinni. 19. október 1987 var um margt sögulegur á fjármálamörkuðum en þann dag lækkaði Dow Jones um 22,6% sem er mesta lækkun vísitölunnar frá kreppunni miklu 1929. Lækkunin þann dag væri sambærileg við að vísitalan myndi lækka um 5.500 stig á einum degi. Þá var lækkunin meðal annars rakin til spennu í Mið-Austurlöndum og hækkandi olíuverðs.

Árásirnar 11. september 2001 höfðu einnig mikil áhrif á markaði en þá nam lækkun Dow Jones 7,1% 17. september 2001 sem var fyrsti dagurinn sem kauphöllin í New York var opin eftir að um þrjú þúsund manns voru drepnir í hryðjuverkaárásum á Bandaríkin.

Fjármálakreppan 2008 hafði einnig mikil áhrif á markaði og 29. september 2008 nam lækkun Dow Jones 7%. Síðan var það Brexit-kosningin í Bretlandi en 24. júní 2016 lækkaði Dow Jones um 3,4%.

Ef litið er til fjármálamarkaða í dag má sjá að hlutabréf hafa hækkað umtalsvert í verði undanfarið enda hagvöxtur ríkjandi víðast og fyrirtæki standa vel og skila góðum hagnaði. Undir lok síðustu viku fóru fjárfestar að selja hlutbréf eftir að ljóst var að tölur um atvinnuleysi í Bandaríkjunum voru í samræmi við væntingar, staðan er góð á vinnumarkaði og auknar líkur á vaxtahækkun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna. Jafnvel að vextir muni hækka hraðar en áður var talið.

Sérfræðingar á markaði segja að fjárfestar eigi að vera viðbúnir því að allt bendi til þess að hlutabréfamarkaðir verði fremur óstöðugir á næstunni og litlar líkur á að hlutabréfaverð hækki mikið á næstu tveimur árum. Eins megi gera ráð fyrir sterkum viðbrögðum á markaði við öllum fréttum tengdum efnahagslífi, svo sem verðbólguhorfum o.fl.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK