Hlutabréf í íslensku Kauphöllinni hafa lækkað talsvert í verði í dag í kjölfar mikillar lækkunar á mörkuðum í Bandaríkjunum í gær. Í kjölfarið lækkuðu hlutabréf á mörkuðum í Asíu í nótt og í Evrópu í dag. Hefur úrvalsvísitalan hér á landi lækkað um 1,8%
Bréf í Origo hafa lækkað mest eða um rúmlega 2,5%. Þá hafa bréf í Skeljungi, Icelandair og Eik lækkað um rúmlega 2%. Bréf í Högum og Sjóvá hafa lækkað minnst og þá er Eimskipafélagið eina félagið á markaði þar sem verð hefur hækkað í dag, en bréf félagsins hafa farið upp um 1,5% það sem af er degi.
Í Evrópu hefur FTSE100 vísitalan í London lækkað um 2,38%, en aðrar helstu vísitölur í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni hafa lækkað svipað mikið.
Dow Jones vísitalan í Bandaríkjunum lækkaði í gær um 4,6% stig sem er mesta lækkun hennar á einum degi frá því fyrir fjármálakreppuna árið 2008. Aðrar vísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu einnig mikið og fór S&P vísitalan niður um 4,1% og Nasdaq niður um 3,78%.