Landsvirkjun hagnaðist um 11,2 milljarða króna á síðasta ári en það er töluvert meiri hagnaður en árið áður þegar hann nam 6,7 milljörðum króna. Selt magn nam 14,3 teravattstundum, sem var yfir 5% aukning frá fyrra ári.
Þetta kemur fram í ársuppgjöri Landsvirkjunar sem var birt í dag. Þar segir að rekstrartekjur hafi numið 50,2 milljörðum króna og hækkað sem nemur 6,3 milljörðum. Nettóskuldir voru 212,4 milljarðar í árslok 2017 og hækkuðu um 8,3 milljarða frá árslokum 2016.
Þá var EBTIDA 35,9 milljarðar og EBTIDA-hlutfallið 71,5% af tekjum samanborið við 71,8% árið áður. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 16 milljörðum en var 11,8 milljarðar árið 2016. Handbært fé frá rekstri hækkaði um 20,9% á milli ára og nam 28 milljörðum króna.
Í tilkynningu um ársuppgjörið er haft eftir Herði Arnarsyni forstjóra að reksturinn hafi gengið vel á árinu 2017. Tekjur hafi verið meiri en nokkru sinni fyrr og slegin hafi verið öll met í orkusölu- og vinnslu. Þá hafi ytri aðstæður verið hagstæðar þar sem álverð hafi hækkað um 23% á milli ára.