Yfirvöld í Kaliforníu hafa gefið bílaframleiðendum og tæknifyrirtækjum grænt ljós á að prófa sjálfkeyrandi bíla án ökumanns.
Í frétt Financial Times um málið segir að hingað til hafi reglur krafist þess að manneskja sitji í bílnum í öryggisskyni. Þessar kröfur hafi leitt tæknifyrirtæki í Kísildalnum í Kaliforníu til þess að hefja prófanir í öðrum ríkjum.
Unnið hefur verið að nýju reglunum í þrjú ár og hafa fyrirtæki í Kísildal beðið óþreyjufull eftir þeim. Ef bílaframleiðendur get sýnt yfirvöldum fram á að tæknin sé örugg og varin gegn tölvuárásum er hugsanlegt að íbúar ríkisins geti fengið far með sjálfkeyrandi bílum á næstu mánuðum.
Fimmtíu fyrirtæki í Bandaríkjunum eru nú þegar byrjuð að þróa sjálfkeyrandi bíla í Kaliforníu. Á meðal þeirra eru Uber, Apple, General Motors, Ford og Toyota.
Þeir sem gagnrýna breytingarnar segja hins vegar að þær geti valdið því að vegir Kaliforníu verði banvænn „tölvuleikur“.