Orkustofnun hefur afturkallað leyfi Eykon engery ehf. til olíuleitar á Drekasvæðinu, en það er mat stofnunarinnar að fyrirtækið uppfylli ekki skilyrði kolvetnislaga um tæknilega né fjárhagslega getu til að takast eitt á við kröfur og skilmála leyfisins eða vera rekstraraðili þess.
Í janúar var greint frá því að kínverska olíufyrirtækið CNOOC og norska olíufélagið Petoro hefðu dregið sig út úr leyfi til olíuvinnslu á svæðinu. Á vefsíðu Orkustofnunar segir að Eykon hafi verið kynnt þessi niðurstaða og hafi félagið farið fram á að fá sérstakan frest til að finna nýja rekstraraðila til samstarfs um olíuleit.
Orkustofnun segir að það myndi hins vegar brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og ákvæði kolvetnislaga, að veita nýjum aðila forgang að sérleyfi á Drekasvæðinu, án auglýsingar. Hafi Eykon verið gerð grein fyrir því að finni félagið samstarfsaðila eða ef aðrir áhugaaðilar um leit og vinnslu kolvetna á Drekasvæðinu óski eftir sérleyfi muni Orkustofnun ígrunda að birta auglýsingu um skilmála nýrra leyfa á lögformlegan hátt.