Iceland Seafood International hefur keypt 67% af útistandandi hlutum í Oceanpath Limited, stærsta framleiðanda ferskra sjávarafurða á Írlandi. Kaupverðið er á bilinu 12,4 til 13,4 milljónir evra.
Í tilkynningu um kaupin segir að ætlað sé að ganga frá kaupunum eins fljótt og mögulegt er og í öllu falli fyrir lok mars, eftir að aðilar hafa lokið við nákvæma útfærslu kaupsamnings og hluthafasamkomulags og að uppfylltum skilyrðum því tengt.
Oceanpath er stærsti framleiðandi og söluaðili ferskra sjávarafurða til smásöluaðila á Írlandi og býður smásölum og heildsölum upp á ferskar og reyktar sjávarafurðir á heimamarkaði. Samstæðan rekur tvær verksmiðjur; Oceanpath sem vinnur og selur ferskar og frosnar sjávarafurðir og Dunn's of Dublin, sem var stofnað árið 1822 og er þekkt vörumerki á Írlandi fyrir reyktar laxaafurðir.
Væntingar um tekjur Oceanpath fyrir núverandi fjárhagsár, sem lýkur 30. apríl 2018, er um það bil 33 til 35 milljónir evra. Hagnaður fyrir skatta og einskiptisliði er áætlaður 1,8 til 2,2 milljónir evra. Tekjur síðasta fjárhagsárs sem lauk í apríl 2017 námu 30,9 milljónum evra og hagnaður fyrir skatta var 1,4 milljónir evra.
Núverandi eignarhald Oceanpath er í höndum Ecock fjölskyldunnar. Alan Ecock er stærsti hluthafinn og mun halda áfram sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins ásamt sonum sínum, Ken Ecock viðskiptastjóra og Trevor Ecock framleiðslustjóra.
Samkvæmt samkomulaginu verður kaupverðið fyrir 67% hlut í Oceanpath á bilinu 12,4 - 13,4 milljónir evra á grundvelli þess að félagið sé afhent skuldlaust og án lausafjár. Endanlegt verð verður háð raunhagnaði Oceanpath fyrir yfirstandandi fjárhagsár fyrirtækisins.
Hluti kaupverðsins eða 7,4 milljónir evra verður greiddur við undirritun samningsins og frekari greiðslur verða inntar af hendi í ágúst 2018 og ágúst 2019. Kaupin verða fjármögnuð með reiðufé og mögulegu langtímaláni að upphæð 5 milljónir evra samhliða kaupunum.
Iceland Seafood International á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1932 og selur, framleiðir og markaðssetur frosnar, saltaðar og ferskar sjávarafurðir um allan heim. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Reykjavík og starfsemi í sex löndum, fiskvinnslur á Spáni og í Bretlandi. Iceland Seafood International er skráð á Nasdaq First North Iceland og árleg sala fyrirtækisins nemur 250 milljónum evra í 45 löndum.