Aðalfundur N1 er hafinn í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Meðal þess sem tekið verður fyrir eru hækkanir á heildargreiðslum til forstjóra N1 á milli ára.
Leiðrétting:
Upphaflega stóð í fyrirsögn og texta að fundurinn hefði verið haldinn fyrir luktum dyrum. Þegar blaðamann bar að garði var honum tjáð að fundurinn væri aðeins fyrir hluthafa. Einhvers misskilnings hefur gætt því N1 hefur nú bent á að hluthafafundir félagsins séu opnir.
Greint hefur verið frá því að Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, hafi fengið 20,6% hærri laun og hlunnindi á síðasta ári en árið áður. Hyggst stjórn VR leggja fram tillögu á aðalfundi N1 í dag um að allir starfsmenn fyrirtækisins fái sömu hækkun og Eggert.
Þá tilkynnti Guðmundur Ragnarsson, formaður VM – félags vélstjóra og málmtæknimanna og stjórnarmaður í Gildi-lífeyrissjóði, í dag að hann vildi selja hlutabréf sjóðsins í N1 vegna málsins.
Almenni lífeyrissjóðurinn mun beita sér sem hluthafi á aðalfundi N1 frekar en að selja hluti í olíufélaginu vegna hækkana á heildargreiðslum til forstjórans. Þetta kemur fram í svari sjóðsins við fyrirspurn mbl.is en þar segir að sú leið þjóni betur hagsmunum sjóðsfélaga. Ekki bárust svör frá öðrum lífeyrissjóðum sem eiga hlut í félaginu.
Í svari Almenna sjóðsins segir að um sé að ræða árangurstengdar launagreiðslur í N1 vegna ársins 2016. Í eigendastefnu Almenna sé umfjöllun um starfskjör og hvatakerfi og þar komi fram að Almenni horfi til þess að heildarlaun, þ.e. föst laun, hlunnindi og árangurstengdar greiðslur, stjórnenda séu í takt við stöðu þeirra, ábyrgð og vinnuálag og taki mið af samanburðarfélögum.
„Þar kemur einnig fram að í þeim tilvikum þar sem samið er um hvatakerfi sé æskilegt að þau séu skilgreind með þeim hætti að áhersla sé lögð á að fjárhagslegir langtímahagsmunir haghafa félags og stjórnenda fari saman. Jafnframt að Almenni líti á það sem kost að hvatakerfi nái til breiðs hóps starfsmanna. Eigendastefnan er endurskoðuð árlega.“