Skoða herðingu á reglum um áhrifavalda í Bretlandi

AFP

Breskir áhrifavaldar á samfélagsmiðlum gætu þurft að lúta strangari reglum í Bretlandi þegar kemur að auglýsingum á vörum eða þjónustu. 

Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Bresk auglýsingayfirvöld (ASA) segja að stafrænar auglýsingar á samfélagsmiðlum, eins og þær sem birtast á Instagram, þurfi að vera auðþekkjanlegar sem slíkar. Sumir vinsælir áhrifavaldar fari hins vegar á svig við reglurnar. 

Áhrifavaldar geta þénað þúsundir punda, jafngildi hundruða þúsunda króna, fyrir hverja færslu á Instagram og öðrum samfélagsmiðlum þar sem þeir kynna vöru eða þjónustu. ASA rannsakar nú hvort herða þurfi reglur um að auglýsingar séu sérstaklega merktar. 

Samkvæmt núgildandi reglum í Bretlandi þurfa áhrifavaldar að taka skýrt fram að færslan sé auglýsing ef þeir fengu greitt fyrir að setja hana inn. ASA getur þvingað þá sem brjóta reglurnar til þess að taka færsluna niður. 

Telur ASA að mörkin á milli eigin efnis og auglýsingaefnis séu enn óskýr og valdi pirringi og ruglingi hjá notendum samfélagsmiðla. „Þó að áhrifavaldar séu ný atvinnugrein hafa reglur á auglýsingamarkaði ekki breyst. Fólk ætti ekki að þurfa að setja sig í hlutverk rannsóknarlögreglumanns til þess komast að því hvort að um sé að ræða auglýsingu eða ekki,“ segir Guy Parker, forstöðumaður stofnunarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK