Breska upplýsinganefndin hefur sótt um leitarheimild til þess að leita á skrifstofum ráðgjafarfyrirtækisins Cambridge Analytica í London.
Þessu er greint frá á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.
Fyrirtækið er meðal annars sakað um að hafa nýtt persónuupplýsingar Facebook-notenda til að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Persónuupplýsingar um 50 milljóna manna af Facebook munu hafa verið nýttar, án þeirrar vitneskju, til að útbúa umfangsmikinn gagnagrunn um bandaríska kjósendur.
Einnig náðust stjórnendur fyrirtækisins á upptöku þar sem þeir stungu upp á því að nota gildrur og mútuboð til þess að niðurlægja stjórnmálamenn. Í upptöku sem Channel 4 birti í gær má heyra forstjóra Cambridge Analytica, Alexander Nix, segja við blaðamann í dulargervi, að ein leið til þess að niðurlægja stjórnmálamann sé að bjóða honum mútur og taka það upp í leyni. Þá segir hann að hægt sé að senda stúlkur að húsi stjórnmálamanna og bætir við að úkraínskar stúlkur séu tilvaldar til þess.
Cambridge Analytica hefur neitað sök og telur fréttaflutning afskræma staðreyndir málsins.