Gjaldþrotaskiptum á þrotabúi R 18 ehf., áður Örk byggingafélag, er lokið en greint er frá skiptalokunum í auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu. Þar segir að samtals hafi kröfum að fjárhæð 587 milljónir verið lýst í þrotabúið. Þar af voru samþykktar forgangskröfur tæplega 17 milljónir. Engar eignir fundust í búinu og ekkert fékkst greitt upp í almennar kröfur.
Á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að það hafi tekið þátt í ýmiss konar uppbyggingu á háskólasvæðinu og í miðbænum. Það sá um uppsteypingu Veraldar – húss Vigdísar, Stúdentagarðanna í Vatnsmýrinni, og hátækniseturs Alvogen og Alvotech.
Í miðbænum sá það um uppsteypingu íbúðahúsnæðisins á Mýrargötu 26, Hafnartorgi og Hafnarstræti 17-19. Í frétt DV frá því í september segir að Örk byggingafélag hafi verið með kranann, sem hrundi í Hafnarstræti, á leigu. Kraninn féll á nýbyggingu og yfir á planið hjá pylsusölunni Bæjarins bestu.