Eigandi hlutabréfa í útgerðinni Hvalur hf. hefur farið þess á leit við stjórn félagsins að samtals 20% af hlutabréfum í félaginu verði gerð ógild þar sem þau hafi glatast og að ný bréf verði gefin út í staðinn.
Í Lögbirtingarblaðinu birtist auglýsing um beiðnina. Handhafar hlutabréfanna sem um ræðir eru beðnir um að gefa sig fram við stjórn félagsins innan þriggja mánaða frá síðustu birtingu áskorunar þessarar og lýsa rétti sínum yfir hlutabréfunum. Gefi enginn sig fram áður en frestur er liðinn falla niður öll réttindi á hendur félaginu samkvæmt hlutabréfinu og verður gefið út nýtt hlutabréf handa hinum skráðu eigendum.
Um er að ræða 59 hlutabréf sem samtals mynda um 41,4 milljónir hlutfjár að nafnvirði. Heildarhlutafé félagsins er um 200,8 milljónir og því nemur innköllun hlutabréfanna tæplega 21%. Það samsvarar um 3,3 milljörðum króna af eigin fé fyrirtækisins sem nam 15,8 milljörðum króna samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2016.
Hvalur hf. er eigandi Vogunar hf. og Væntingar hf. Samkvæmt ársreikningnum átti Hvalur 33,7% hlut í HB Granda, 38,7% hlut í Hampiðjunni og 16,6% hlut í Nýherja gegnum þessi félög árið 2016. Glötuðu hlutabréfin í Hval mynda þannig 7% hlut í HB Granda.
Ekki náðist í Kristján Loftsson, stjórnarformann Hvals, við gerð fréttarinnar.